Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Jörð skelfur á Mars

23.04.2019 - 16:26
Mynd með færslu
 Mynd: NASA
Vísindafólk við frönsku geimferðarstofnunina Cnes greindi frá því í dag að geimfarið SEIS hefði mælt jarðskjálfta á Mars 6. apríl síðastliðinn. Þetta er fyrsti skjálftinn sem fundist hefur á plánetunni rauðu. AFP greinir frá.

SEIS fékk far til Mars með geimfarinu InSight sem bandaríska geimferðarstofnunin NASA sendi til plánetunnar og lenti þar í desember. Mælitæki á franska farinu námu titring á Mars sem vísindafólk telur að hafi verið jarðskjálfti.

Geimfarið SEIS
SEIS eða Seismic Experiment for Interior Structure. Mynd: NASA

Unnið er að því að greina orsök skjálftans og ganga úr skugga um skjálftinn hafi átt upptök sín í iðrum plánetunnar en hafi ekki verið vegna vinds eða annarra orsaka. Auk skjálftans þann 6. apríl hefur SEIS greint þrjá minni skjálfta á Mars.

Vísindafólk hefur beðið fyrsta skjálftans með mikilli eftirvæntingu og segir talsmaður NASA að ný fræðigrein hafi litið dagsins ljós, svokölluð „Marsskjálftafræði“. 

Vonast er til þess að geimfarið veiti upplýsingar um virkni í kjarna plánetunnar og þar með hvernig Mars myndaðist fyrir milljörðum ára síðan.

thorvardurp's picture
Þorvarður Pálsson
Fréttastofa RÚV