Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Jörð 2 fundin

05.12.2011 - 21:42
Mynd með færslu
 Mynd:
Vísindamenn hafa fundið reikistjörnu sem líkist jörðinni meira en nokkur önnur pláneta sem vitað er um. Taldar eru góðar líkur á að þar geti þrifist líf.

Plánetan hefur hlotið nafnið Kepler 22b, enda fannst hún með aðstoð Kepler geimsjónaukans sem kenndur er við þýska stjörnufræðinginn Johannes Kepler. Sjónaukinn hefur á síðustu tveimur árum numið ljós frá meira en 200 plánetum sem eru taldar hafa svipaða eiginleika og jörðin.

Þegar vísindamenn meta hversu líklegt sé að líf finnist á tiltekinni plánetu taka þeir einkum tillit til fjarlægðar frá sólu. Stundum er talað um að svokallað byggilegt belti liggi í kringum hverja stjörnu og utan þess séu hverfandi líkur á að líf finnist, enda ýmist of kalt eða heitt.

Kepler 22b er á besta stað hvað þetta varðar og meðalhiti er í kringum 22°C, sem verða að teljast ákjósanlegar aðstæður fyrir líf.

Plánetan er meira en tvisvar sinnum stærri en jörðin en ekki er vitað hvort hún er að mestu úr gasi, bergi eða vökva.

Því miður verður einhver bið á því að frekari fréttir berist af Kepler 22b enda er hún í um 600 ljósára fjarlægð. Vísindamenn sem stjórna Kepler sjónaukanum eru hins vegar með tæplega fimmtíu aðrar reikistjörnur í sigtinu en þær eru allar taldar hafa svipaða eiginleika og jörðin.

Þær verða rannsakaðar nánar á næstu vikum og mánuðum og vísindamenn eru vongóðir um að finna fleiri plánetur þar sem líf getur þrifist. Fáar eru samt jafn líklegar og Kepler 22b, enda hefur hún nú þegar hlotið viðurnefnið „Jörð númer 2“.