Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Jónsi semur tónlist fyrir þriðju drekamyndina

Mynd: EPA/Dreamworks / EPA/Dreamworks

Jónsi semur tónlist fyrir þriðju drekamyndina

14.01.2018 - 10:00

Höfundar

Tónlist Jónsa steinlá fyrir myndirnar og varð hluti af rödd þeirra, segir Dean DeBlois, leikstjóri teiknimyndanna How to train your dragon 1 og 2. Jón Þór Birgisson - Jónsi - söngvari Sigur Rósar, samdi lokalagið í báðum myndunum og endurtekur leikinn í þriðju myndinni sem kemur út á næsta ári. 

How to train your dragon eru meðal farsælustu teiknimynda sögunnar og hafa halað inn yfir 125 milljarða króna um allan heim. Leikstjóri myndanna, hinn kanadíski Dean DeBlois, var gestur á listahátíð Sigur Rósar, Norður og niður, í Hörpu milli jóla og nýárs, en hann leikstýrði heimildarmyndinni Heima á sínum tíma.

Aðdáandi hljómsveitarinnar og sóttist eftir verkefni

DeBlois var þegar farsæll teiknimyndaleikstjóri þegar leiðir hans og Sigur Rósar lágu saman. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

„Þetta kom til þegar ég hafði nýlokið við Lilo og Stitch fyrir Disney. Mig langaði mikið að reyna mig við lifandi kvikmyndagerð. Myndböndin sem höfðu mest áhrif á mig voru myndir eftir leikstjórateymið Árna & Kinski, sem hafa unnið mikið fyrir Sigur Rós. Ég ákvað að reyna að hafa samband við sveitina. Ég lét þá vita að ég væri kvikmyndagerðarmaður og hefði áhuga á að vinna með þeim og að tónlistin þeirra veitti mér innblástur. John Best, umboðsmaður þeirra, hafði samband og sagði að hljómsveitin væri á tónleikaferðalagi en kæmi til Hollywood Bowl eftir nokkra mánuði, hann myndi útvega mér fund með hljómsveitinni og það stóðst." 

Samdi lagið í flugi með síma

DeBlois lauk við heimildarmyndina Heima, þar sem hljómsveitinni er fylgt í kringum Ísland, en sneri sér aftur að teiknimyndum. Þegar hann vann að smellinum How to train your dragon datt honum í hug að fá Jónsa til að semja fyrir sig lokalagið. 

„Við vorum búin með myndina en höfðum ekkert lag fyrir titlana í lokin. Ég bauð Jónsa á sýningu og spurði hvort hann hefði áhuga á að semja slíkt lag. Hann samdi það í símanum sínum á leiðinni heim til Reykjavíkur frá London og kláraði það í eldhúsinu. Áður en myndverið gat æmt eða skræmt eða spurt hverjir Sigur Rós eða Jónsi væru var lagið tilbúið. Það varð síðan hluti af rödd kvikmyndarinnar og tónlistarinnar. Þetta steinlá fyrir aðra myndina og við ætlum að endurtaka leikinn fyrir síðustu myndina í þríleiknum.“

Stundum er sagt að það sé óráðlegt fyrir aðdáendur að kynnast hetjunum sínum. DeBlois segist hafa þveröfuga sögu að segja. 

„Þeir eru orðnir góðir vinir mínir. Þeir eru einhverjar bestu manneskjur sem ég þekki og veita mér áfram innblástur.“
 

Tengdar fréttir

Sigur Rós blæs til fjögurra daga listahátíðar

Tónlist

Hægt að njóta Sigur Rósar í sýndarveruleika

Tónlist

„Ekki mörg hjónabönd sem endast svona lengi“

Tónlist

Sigur Rós heldur Norður og niður