Upplausn hefur ríkt í nefndinni allt frá því að Bergþór Ólason, fráfarandi formaður og þingmaður Miðflokksins, settist aftur á þing. Á síðasta fundi nefndarinnar lagði minnihluti hennar og Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður VG, til að kjörinn yrði nýr formaður. Því var vísað frá.
Frá þeim tíma hafa þingflokksformenn tekist á um það hvernig formennska í nefndinni yrði háttað. Þegar núverandi meirihluti VG, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins var myndaður síðla árs 2017 var samið um það á milli þingflokkanna að minnihlutinn fengi formennsku í þremur nefndum, velferðarnefnd, umhverfis- og samgöngunefnd og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Kjör Jóns Gunnarssonar er ekki í samræmi við þá niðurstöðu.