Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Jón: Stjórnvöld eiga að mótmæla

12.08.2012 - 19:22
Mynd með færslu
 Mynd:
Borgarstjóri segir að íslensk stjórnvöld eigi að mótmæla mannréttindabrotum hvar sem er og við öll tækifæri. Gerningur hans í Gleðigöngunni í gær þar sem hann mótmælti meðferð rússneskra stjórnvalda á þremur tónlistarkonum hefur vakið mikla athygli utan landsteinanna.

Jón Gnarr vakti mikla athygli með gerningi sínum í Gleðigöngunni í gær þar sem hann stóð á palli sendibíls í nokkurskonar einkennisklæðnaði rússnesku sveitarinnar Pussy Riot, en þrír meðlima hennar sitja á bak við lás og slá í Rússlandi og eiga allt að sjö ára fangelsi yfir höfði sér fyrir að mótmæla rússneskum stjórnvöldum. Með þessu vildi Jón mótmæla mannréttindabrotum gegn konunum, líkt og fjölmargir hafa gert víða um heim á síðustu vikum. Jón segist hafa fengið mikil viðbrögð í kjölfar göngunnar.

„Bæði SMS og skilaboð á Facebook og tölvupóstum og líka frá fólki úti á götu. Fólk virðist almennt mjög ánægt með þetta,“ segir Jón.

Gerningur Jóns hefur vakið mikla athygli í fjölmiðlum víða um heim, meðal annars í Rússlandi. Jón er þeirrar skoðunar að íslensk stjórnvöld geti og eigi að beita sér af miklu meiri krafti gegn mannréttindabrotum hvar sem er. „Íslensk stjórnvöld sem fulltrúar landsins, einhvers mesta mannréttindalands í heimi, eiga að sjálfsögðu að nota aðstöðu sína til að vekja athygli á mannréttindum og mótmæla mannréttindabrotum hvar sem er og nota hvert einasta tækifæri til þess.“