Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Jón Steinar sýknaður í meiðyrðamáli

21.06.2018 - 12:39
Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd - RÚV
Jón Steinar Gunnlaugsson, hæstaréttarlögmaður, var í morgun sýknaður í meiðyrðamáli sem Benedikt Bogason, hæstaréttardómari, höfðaði á hendur honum vegna ummæla sem birtust um hann í bók Jóns Steinars, Með lognið í fanginu. Benedikt krafðist þess að Jón Steinar yrði dæmdur til að greiða honum 2 milljónir króna.

Benedikt fór fram á  að fimm ummæli í bókinni yrðu dæmd dauð og ómerk. 

Hann taldi að Jón Steinar hefði ásakað hann og meirihluta dómara í máli Baldurs Guðlaugssonar, fyrrverandi ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu, um dómsmorð. Varla væri hægt að saka dómara við æðsta dómstól þjóðarinnar um alvarlegra brot í starfi. Baldur hlaut tveggja ára fangelsisdóm í Hæstarétti árið 2012 fyrir innherjasvik og brot í opinberu starfi. 

Héraðsdómur segir í dómi sínum að meta verði skrif Jóns Steinars í bókinni í heild sinni. Hvergi séu Benedikt eða aðrir dómarar í kaflanum sakaðir um refsiverða háttsemi.  Jón Steinar taki vissulega stundum sterkt til orða en þegar hann noti hugtakið dómsmorð  hafi hann það verið óeiginlegri merkingu, aðallega til að leggja áherslu á orð sín.

Þá segir dómurinn að ummælin sem Benedikt krafðist að dæmd yrðu dauð og ómerk séu gagnrýni á störf Hæstaréttar og beinist ekki að honum persónulega. Dómurinn bendir jafnframt á að nafn Benedikts sé ekki nefnt í þessum kafla bókarinnar nema þegar dómararnir sem dæmdu í máli Baldurs eru taldir upp.

 Játa yrði Jóni Steinari rúmt tjáningarfrelsi um þá dóma Hæstaréttar sem fjölluðu um sakamál eftir bankahrunið  þar á meðal hvort réttarkerfið hefði staðist þrýsting og reiði almennings eftir hrunið en það væri skoðun Jóns Steinar að svo hefði ekki verið.

 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV