Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Jón og Bryndís íhuga að stefna RÚV

13.02.2019 - 12:03
Mynd með færslu
 Mynd:
Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi ráðherra, og Bryndís Schram, eiginkona hans, skrifa útvarpsstjóra opið bréf í Morgunblaðinu í dag og gefa honum viku frest til þess að draga til baka ummæli, sem látin voru falla í viðtali við Aldísi dóttur þeirra í Morgunútvarpinu á Rás tvö 17.janúar, og í aðsendu bréfi þáttastjórnendanna Helga Seljan og Sigmars Guðmundssonar, sem birt var í Morgunblaðinu á föstudaginn var.

Bregðist útvarpsstjóri ekki við þá áskilji þau sér rétt á að stefna honum fyrir hönd Ríkisútvarpsins, og starfsmönnum hans og viðmælendum. Þá fara þau fram á bætur fyrir það sem þau kalla ófrægingarherferð RÚV.

Hjónin segja að í viðtalinu hafi Helgi og Sigmar borið á borð fyrir hlustendur sína að minnsta kosti fjórtán „til­hæfu­laus­um ásök­un­um, röng­um full­yrðing­um og gróf­um meiðyrðum“. Þau segjast í bréfinu telja við hæfi að útvarpsstjóri veiti þeim áminningu og biðji hlustendur afsökunar. 

Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson lögmaður staðfestir að hann hafi fyrir hönd Jóns Baldvins sent útvarpsstjóra bréf í gær þar sem óskað er eftir upplýsingum um hver beri ábyrgð á ummælum sem látin voru falla í Morgunútvarpinu og vikufrestur veittur til að svara. Hann segir að bréfið hafi varðað þetta viðtal og hafi aðrir fjölmiðlar ekki fengið sambærilegt bréf vegna síns fréttaflutnings af ásökunum Aldísar.  

Við þetta má bæta að Vísir greindi fyrstur frá því í morgun að Aldís hefði kært Hörð Jóhannesson lögreglumann sem hún telur hafa brotið gegn þagnarskylduákvæði lögreglulaga með því að gefa út vottorð til foreldra hennar um afskipti lögreglu af henni og aðkomu foreldra hennar að því. 

Fréttin hefur verið leiðrétt klukkan 12:20. Vilhjálmur sendi bréfið til útvarpsstjóra fyrir hönd Jóns Baldvins en ekki fyrir hönd hjónanna, eins og áður var sagt í fréttinni. Beðist er velvirðingar á þessu. 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV