Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Jón Gunnarsson hnýtir í nefndarskipan ráðherra

18.11.2016 - 17:31
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Jón Gunnarsson, formaður Atvinnuveganefndar Alþingis, segir skipan ráðherra í starfshóp um endurskoðun búvörusamninga ekki í anda þess sem lagt var upp með. Meira jafnvægi hefði hefði þurft. Landbúnaðarráðherra skipaði í dag tvo fulltrúa bænda til viðbótar við þá þrjá sem fyrir voru í hópnum. Jón segir hlutverk starfshópsins mikilvægt og ekki síst þess vegna sé nauðsynlegt að meiri breidd sé í hópnum. Hann segir ástæðu til að skoða hvort ekki sé hægt að mæta betur gagnrýni á skipanina.

„Ég hefði viljað hafa meira jafnvægi í þessu þó ég fagni því að þetta sé komið af stað,“ segir Jón Gunnarsson í samtali við fréttastofu, aðspurður um skipanir landbúnaðarráðherra, í starfshóp um endurskoðun búvörusamninga. 

Hugmyndir að starfshópnum urðu til í umfjöllun um nýsamþykkta búvörusamninga í atvinnuveganefnd þingsins og var ætlað að skapa sátt um fyrirkomulag búvörusamninga og starfsskilyrði landbúnaðarins til framtíðar.

Hallar á atvinnulífið

Hópurinn á að starfa til ársins 2019 og hafði Jón Gunnarsson meðal annars lýst því yfir að nauðsynlegt væri að í hópinn veldust fulltrúar flestra þeirra sem hagsmuni hefðu af málinu. Sú ákvörðun landbúnaðarráðherra að fjölga enn fulltrúum bænda í hópnum, en þeir eru nú fimm af tólf fulltrúum þar, eru viss vonbrigði að sögn Jóns.

„Það var mikið atriði að sem flest sjónarmið kæmust að í þessum hópi enda er verkefni hans gríðarstórt,“ segir Jón. „Þetta var gert til að leiða fram sem víðtækast samráð og miðað við þessa skipan á fulltrúum, tel ég að halli svolítið á atvinnulífið í þessu. Ég hefði kosið að fulltrúar innflytjenda og vinnslustöðva í þessari grein ættu að koma þarna að líka.“

Ekki vilji þingsins

Spurður hvort hann liti svo á að núverandi skipan hópsins væri í takti við það sem þingið hafi ætlað, sagði Jón svo ekki vera.

„Nei, þetta er það ekki en í sjálfu sér sé ég ekkert að því að í svona hópi verði fleiri en færri, enda verkefnið stórt.“ Hann teldi því allt opið varðandi það að fjölga í starfshópnum eða breyta skipan hans, ef svo bæri undir.

„Mér finnst sjálfsagt að þessi skipan verði opin. Það er mikilvægt að það verði skoðað hvort ekki sá ástæða til að mæta þeirri gagnrýni og því hvernig hallar á fulltrúa til dæmis atvinnulífsins þarna,“ sagði Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar alþingis, í samtali við fréttastofu nú síðdegis.

 

helgis's picture
Helgi Seljan
Fréttastofa RÚV