Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Jón Gnarr útilokar ekki forsetaframboð

09.10.2014 - 19:06
Mynd með færslu
 Mynd:
Mynd:  / 
„Já það kemur alveg til greina,“ svarar Jón Gnarr, fyrrverandi borgarstjóri, þegar hann er spurður hvort hann gæti hugsað sér að bjóða sig fram til forseta. „Ég hef ekki alveg tekið afstöðu til þess. Það er eitthvað sem kemur alveg til greina en mér finnst það ekki alveg trúverðugt í augnablikinu.“

Hann útilokar þó ekki að hann bjóði sig fram til forseta árið 2016. „Ég er náttúrlega leikari og maður mómentsins og ég útiloka ekkert. Og svo getur verið að ég fari að gera eitthvað allt annað sem mér sjálfum hefði ekki alveg dottið í hug sjálfum.“

Aðspurður hvort hann sjái sjálfan sig fyrir sér á Bessastöðum, segist hann ekki hafa pælt mikið í því. „En auðvitað finnst mér vænt um það þegar fólk er að segja það að það myndi vilja að ég yrði forsetinn þeirra og auðvitað finnst mér vænt um það.“

Annað hvert ár afhendir Yoko Ono, ekkja Bítilsins John Lennon, friðarverðlaun í tengslum við tendrun Friðarsúlunnar í Viðey. Að þessu sinni voru fern verðlaun afhent - til þriggja einstaklinga og eins pars. Meðal þeirra sem hlaut verðlaunin í Hörpu í dag er Jón Gnarr. Í rökstuðningi segir meðal annars að Jón hafi barist ötullega fyrir mannréttindum og málfrelsi. „Ég er bara snortinn og upp með mér og ofboðslega glaður,“ sagði Jón af þessu tilefni. 

Verðlaunaféð nemur sex milljónum króna og lætur Jón það renna til Samtaka um kvennaathvarf.