Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Jón Gnarr ætlar að samþykkja

16.03.2011 - 02:18
Mynd með færslu
 Mynd:
Jón Gnarr, borgarstjóri,sem er í Austurríki til að kynna heimildarmyndina um sjálfan sig, veitti austurrísku fréttastofunni APA viðtal.

Þar lýsir hann m.a. þeirri skoðun sinni, að hafni Íslendingar Icesave-samkomulaginu í þjóðaratkvæðagreiðslunni blasi alvarlegar afleiðingar við þjóðinni. Til dæmis sé ljóst að stjórn Jóhönnu Sigurðardóttir falli og aðildarviðræður við ESB séu um leið slegnar út af borðinu. Sjálfur segist Jón munu greiða atkvæði með nýja samningnum. Reyndar skilji hann málið alls ekki en sé orðinn hundleiður á því og muni því greiða atkvæði með, í þeirri von að þar með sé málinu lokið. Falli stjórnin sé hins vegar alls óljóst hverjir taki við. Kannski verði það Sjálfstæðismenn, en þá ætli hann að flýja til Grænhöfðaeyja. Jón segist ekki vita hvort meirihluti Íslendinga vilji ganga í ESB. Hann gruni að flestir vilji taka upp evruna í stað krónunnar, sem sé Mikka-mús gjaldmiðill. Hann vilji sjálfur taka upp bandaríkjadollara frekar en evruna, enda þurfi Ísland ekki að ganga í Bandaríkin til þess.