Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Jón Baldvin kærður og boðaður í skýrslutöku

30.03.2019 - 13:11
Mynd með færslu
 Mynd:
Carmen Jóhannsdóttir hefur kært Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi sendiherra og ráðherra, fyrir kynferðislega áreitni. Hann var boðaður í skýrslutöku hjá lögreglunni á Hverfisgötu í vikunni vegna kærunnar. Málið er nú í rannsókn hjá lögreglu.

Kæran var send skriflega til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í byrjun mánaðar og er Carmen búin að gefa skýrslu. Í skriflegri yfirlýsingu sem Carmen sendi fyrst á Stundina, sem greindi frá málinu, og síðar til fréttastofu RÚV, segir hún að hún hafi kært Jón Baldvin vegna kynferðislegrar áreitni sem hann beitti hana á heimili sínu í Salobrenia á Spáni þann 16. júní árið 2018. Í yfirlýsingunni segir Carmen að málið sé nú komið í hendur lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og að hún hafi trú á að það verði rannsakað af fagmennsku. Hún ætlar ekki að tjá sig meira um málið að sinni. 

Jón Baldvin gaf skýrslu hjá lögreglunni á Hverfisgötu

Stundin greinir svo frá því að að Jón Baldvin hafi gefið skýrslu hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu á Hverfisgötu í vikunni vegna málsins og staðfesta heimildir fréttastofu það. Fréttastofa hefur ekki náð tali af Jóni Baldvini vegna málsins en fyrir liggur beiðni um viðtal.