Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Jón Ásgeir: Niðurstaðan kom ekki á óvart

18.05.2017 - 13:32
Mynd með færslu
Jón Ásgeir Jóhannesson, fyrrverandi aðaleigandi og forstjóri Baugs. Mynd: RÚV
Jón Ásgeir Jóhannesson segir niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu ekki hafa komið sér á óvart. Mannréttindadómstóll Evrópu komst samhljóða að þeirri niðurstöðu í morgun að íslenska ríkið hefði brotið gegn Jóni Ásgeiri og Tryggva Jónssyni með því að dæma þá tvisvar á grundvelli sömu sönnunargagna.

Í tilkynningu frá Jóni Ásgeiri gagnrýnir hann að það hafi engu breytt í refsimeðferð skattamála hér á landi þótt mannréttindadómstóllinn hefði tekið mál hans til efnismeðferðar og fyrir lægju fordæmi um að íslenska réttarkerfið stæðist ekki. Jón Ásgeir segist hafa það á tilfinningunni, eftir fimmtán ára baráttu í réttarsölum, að pottur væri brotinn í íslensku réttarkerfi. Niðurstaða Mannréttindadómstólsins styðji þann grun og sömuleiðis að íslenska réttarkerfið sé ekki undanþegið Mannréttindasáttmála Evrópu.