Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Jólaskreytingar geta verið hættulegar dýrum

20.12.2018 - 09:55
Mynd með færslu
 Mynd:
Hefðbundnu jólahaldi á heimilum geta fylgt ýmsar hættur fyrir gæludýrin. Til dæmis geta sælgæti, jólaseríur og skreytingar valdið dýrunum meiri vandamálum en gleði. Á vef MAST er að finna ýmsar leiðbeiningar sem gott er fyrir gæludýraeigendur að hafa í huga yfir hátíðirnar.

Mörgu fólki finnst ómissandi yfir jólahátíðina að gera vel við sig í mat og drykk. Samkvæmt leiðbeiningum MAST er súkkulaði, laukur, rúsínur, lárperur og vínber hættuleg dýrum. Skörp bein, svo sem fuglabein eða lambabein geta stungist í gegnum meltingarveg dýra. Þá geta önnur bein valdið stíflu.

Hættulegt ef dýr gleypa gjafabönd

Hundar og kettir geta tekið upp á því að éta gjafabönd og skreytingar. Ef böndin festast í meltingarveginum getur það skapað mikla hættu fyrir dýrið. Stundum festist hluti af spotta utan um tungu þó að hluti af honum gangi niður. Ef spotti er kominn í maga eða þarm og gengur svo aftur úr dýri eða upp úr því er mjög mikilvægt að alls ekki toga í spottann. Það getur skorið þarmana eða vélindað eins og hnífur. Leita þarf strax til dýralæknis. 

Sumir hundar naga jólaseríur

Hundar geta tekið upp á því að bíta í jólaseríur og geta fengið óþægilegt rafstuð. Kerta- og blómaskreytingar geta verið varasamar fyrir dýrin. Oft gæta þau sín ekki á kertaljósið og geta brennt sig og kveikt í feldinum ef þau fara of nálægt. Ósjaldan hefur gerst að kettir haf kveikt í veiðihárum sínum þegar þeir þefa af kertum. Gæludýraeigendur eru því hvattir til að hafa logandi ljós á stöðum þar sem dýrin komast ekki að þeim. Jólastjörnur, mistilteinn og önnur jólablóm eru mildilega eitruð ef þau eru étin og geta valdið slefi, uppköstum, niðurgangi.

Slæmt ef dýr borða nálar af jólatrjám

Jólatré eru yfirleitt ekki eitruð, að því er fram kemur á vef MAST en geta þó valdið niðurgangi og uppköstum ef þau eru étin. Nálar trjánna geta einnig valdið ertingu, stungið í slímhúð og jafnvel í þófa. Margir kettir hafa gaman af því að fara á jólaskrautsveiðar og geta þá velt trjám ef þau eru ekki vel skorðuð.

Rafhlöður eru víða notaðar um jólin og það getur komið fyrir að dýr gleypi þær. Það getur verið hættulegt því að rafhlöðurnar innihalda þungmálma og sýru sem geta valdið stíflu. Mælt er með því að hafa samband við dýralækni ef grunur er á því að dýr hafi gleypt rafhlöðu.

Nánar má lesa um ráðleggingar MAST hér.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir