Jólapappírinn á að fara í bláu tunnuna

23.12.2017 - 15:14
Mynd með færslu
 Mynd: Sarah Pflug - Burst
Í Reykjavík á allur jólapappír á heimilum að fara í bláar ruslatunnur eða pappírsgáma á grenndar- og endurvinnslustöðvum. Hægt er að þekkja pappír frá plasti því plast fer í sundur aftur ef því er kuðlað saman, að því er fram kemur í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Krullubönd utan um pakka eru yfirleitt gerð úr plasti. Á grenndarstöðvum eru gámar undir pappír og plast, auk gáma undir gler og dósir með skilagjaldi í umsjá skátanna og undir fatnað á vegum Rauða krossins. Búist er við miklum úrgangi nú um jólin og því er fólk hvatt til að flokka og skila til endurvinnslu um jól og áramót.

Í nógu verður að snúast hjá starfsfólki sorphirðu Reykjavíkurborgar yfir hátíðirnar. Þar hefjast störf eldsnemma á þriðja í jólum og verður unnið út vikuna, líklega til hádegis á gamlársdag sem verður á sunnudegi.

Borgarbúar eru hvattir til að moka frá tunnum ef snjóar og tryggja þannig gott aðgengi. Hurðar og læsingar geta frosið á köldum dögum og eru borgarbúar því hvattir til að nota lásaúða. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi