Jólamatarsóun

Mynd með færslu
 Mynd:

Jólamatarsóun

22.12.2014 - 14:52
Sennilega er aldrei jafnmiklu af mat hent á Vesturlöndum eins og einmmitt um jólin. Danir hafa reiknað út að í desember sé þar í landi hent matvælum að jafnvirði 13 milljarða íslenskra króna. Stefán Gíslason fjallar um jólamatarsóun í pistli sínum.

Eins og glöggir íbúar þessa lands hafa trúlega tekið eftir eru jólin ekki bara hátíð ljóss og friðar, heldur líka hátíð neyslu sem á það til að fara úr böndunum. Þess vegna er sérstök ástæða til að fara að öllu með gát í þessum efnum á þessum árstíma, því að neysla sem fer úr böndunum er bæði slæm fyrir fjárhag neytandans sem í hlut á og fyrir umhverfið.

 

Ég hef áður talað um ýmsa umhverfisþætti sem tengjast jólunum og um nokkur helstu tækifærin til úrbóta á því sviði. Það væri til dæmis mjög til bóta að hætta að gefa óþarfa í jólagjöf, en undir óþarfa flokkast allt það sem viðtakandinn hefur ekkert með að gera. Svoleiðis jólagjafir skilja eftir sig óþörf fótspor í náttúrunni og samfélaginu. Ég hef líka talað um kertin sem eiga helst ekki að vera olíukerti heldur gerð úr dýra- eða plöntufitu á borð við stearín og vera Svansmerkt til að tryggja að stearínið sé ekki upprunnið úr pálmaolíu sem er ættuð af svæðum þar sem áður voru regnskógar. Og svo hef ég líka talað um jólapappír sem á helst að vera margnota. En ég var ekkert byrjaður að tala um jólamatinn. Nú er röðin komin að honum.

 

Ég hef engin áform um að reyna að breyta vali fólks á jólamat, enda hefur hver fjölskylda sínar hefðir í því sambandi og slíkar hefðir eru dýrmætar. Auk þess eru sjálfsagt flestir búnir að kaupa það helsta í jólamatinn og margir eru líka búnir að baka eitthvað sem ekki verður breytt héðan af. Baksturinn er hluti af hefð, auk þess sem hann er stundum miðpunkturinn í samverustundum fjölskyldunnar dagana fyrir jól. Slíkar stundir eru dýrmætar. En hvað sem verður í matinn og hversu margar sem kökusortirnar eru orðnar, þá skiptir afskaplega miklu máli hvernig farið er með þetta allt saman þegar á hólminn er komið. Sóun matvæla er nefnilega alls ekki í anda jólanna og hvorki góð fyrir budduna né umhverfið.

 

Flest bendir til að hin dæmigerða fjölskylda á Vesturlöndum hendi aldrei meiri mat en einmitt um jólin. Ég hef ekki séð neinar tölur um það hversu miklum jólamat íslenskar fjölskyldur henda í ruslið, en þessi mál hafa hins vegar verið nokkuð til umfjöllunar í dönskum fjölmiðlum síðustu vikur, m.a. í tilefni af nýrri könnun sem unnin var í samstarfi Coop Consumer Insights og Selínu Juul og félaga í samtökunum Stop spild af mad. Þessi könnun bendir til að á meiri hluta danskra heimila falli til gríðarlegt magn af afgöngum um hátíðirnar, jafnvel þó að Danir séu að öðru leyti orðnir þokkalega meðvitaðir um mikilvægi þess að sóa ekki matvælum. Þannig munu líklega um 72% danskra heimila eiga rauðkálsafganga eftir jólamáltíðina, hvítar kartöflur ganga af hjá 64 %, möndlugrautur eða salamöndrubúðingur hjá 59%, svínasteik hjá 56% og önd hjá 46%. Þetta er náttúrulega í góðu lagi í mörgum tilfellum, því að flestir setja þessa afganga jú í ísskápinn og borða eitthvað af þeim á næstu dögum. En reynslan sýnir reyndar að ísskápurinn er í þessum tilvikum oftar en ekki líknardeild fyrir góðan mat, svo vitnað sé í orð Signe Frese hjá Coop. Stór hluti af þessu öllu endar sem sagt í ruslinu þrátt fyrir góðan ásetning og viðkomu í ísskápnum. Þannig er áætlað að í desembermánuði einum hendi Danir matvælum fyrir jafnvirði 23 milljarða íslenskra króna, en það samsvarar 14.630 íslenskum krónum á hvert heimili í landinu. Einhvern veginn læðist að mér sá grunur að þessi tala sé ekki lægri á íslenskum heimilum.

 

Nú kann einhver að spyrja hvað sé svona slæmt við að henda mat. Þetta sé hvort sem er eitthvað sem sé upprunnið í náttúrunni og megi alveg skila sér þangað aftur. En málið er auðvitað ekki alveg svo einfalt, því að á bak við hvert kíló af mat, sérstaklega kjötmeti, liggja heil ósköp af olíu og annarri orku, áburði, vatni og jafnvel varnarefnum, sem ástæðulaust er að nota til einskis. Sjálf sjáum við bara lítinn hluta sóunarinnar liggjandi í ruslafötunni okkar.

 

Einhvern tímann lærði ég heilræðið „frekar að verða illt af matnum en henda honum“. Ég held dálítið upp á þetta heilræði, ekki vegna þess að það sé gott, heldur vegna þess að mér finnst það fyndið og skemmtilegt. Það vekur líka upp spurninguna um það hvort sé betra að henda étnum mat eða óétnum. Ég hef ekki séð neinar skýrslur um þetta tiltekna atriði, en líklega er þó af tvennu illu skárra að henda matnum óétnum. Það er með öðrum orðum ekki góð hugmynd að borða umfram þarfir bara til að koma í veg fyrir að maturinn endi í ruslinu. Engu að síður grunar mig að þess séu dæmi að fólk borði allt of mikið um jólin, hvort sem það er beinlínis gert í þeim tilgangi að draga úr myndun úrgangs eða af einhverjum öðrum ástæðum. Ofát er auðvitað ekki gott fyrir neinn, heldur dregur það alla jafna úr lífsgæðum þegar til lengri tíma er litið og veldur óþarfa álagi og kostnaði í heilbrigðiskerfinu. Mér skilst að nú sé svo komið á heimsvísu að fleiri þjáist af offitu en hungri og yfirþyngd fólks er farin að valda ýmsum umhverfisvandamálum, svo sem aukinni losun gróðurhúsalofttegunda í flugsamgöngum.

 

Þó að búið sé að kaupa í jólamatinn og baka allar kökurnar er samt hægt að gera margt til að draga úr neikvæðum áhrifum matartekjunnar á umhverfi og heilsu. Í fyrsta lagi er náttúrulega þjóðráð að elda bara hóflega mikinn mat. Í öðru lagi borgar sig alls ekki að borða of mikið til þess eins að koma í veg fyrir að maturinn fari til spillis. Og í þriðja lagi er ástæðulaust að nota ísskápinn fyrir líknardeild. Skynsamlegra er að frysta afganga í hæfilegum skömmtum til síðari nota. Við þessi góðu ráð má svo bæta nokkrum öðrum góðum ráðum af síðunni Love Food – Hate Waste, t.d. að byrja á að rifja upp hverjir verði í mat á hverjum tíma og gera svo matseðla og innkaupalista fyrir nákvæmlega þann fólksfjölda. Svo er gott að hafa í huga að matarinnkaupin eru bara gerð fyrir jóladagana en ekki fyrir sex mánaða umsátur – og að búðirnar verða að öllum líkindum opnaðar fljótlega aftur.