Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Jólabókagjöf Rásar 1

Mynd með færslu
 Mynd: Pexels

Jólabókagjöf Rásar 1

24.12.2019 - 08:11

Höfundar

Rás 1 og menningarvefur RÚV færa landsmönnum þrjú íslensk skáldverk í hljóðbókarútgáfu að gjöf á aðfangadag jóla.

Bækurnar eru Hjartastaður eftir Steinunni Sigurðardóttur, Konan við 1000 gráður eftir Hallgrím Helgason og Elín, ýmislegt eftir Kristínu Eiríksdóttur.

Hægt er að nálgast hljóðbækurnar í útvarpsspilara á menningarvef RÚV –RUVmenning.is. Einnig er hægt að hlaða þeim niður í hlaðvarpi með því að smella á viðeigandi tengla við sérhverja bók hér fyrir neðan.

Hjartastaður eftir Steinunni Sigurðardóttur

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Útvarpsspilari | iTunes

Að bjarga barninu sínu: Getur nokkuð móðir lagt í erfiðari ferð? Harpa Eir verður að takast hana á hendur með unglinsdóttur sína, Eddu Sólveigu, sem komin er í bland við hæpið lið í Reykjavík. Hún fær vinkonu sína, þekktan flautuleikara, til að aka þeim mæðgum á ættaróðalið austur í fjörðum þar sem þær ætla að hafa vetursetu. En leiðangurinn sem upphaflega var lagt í til að bjarga barninu verður öðrum þræði að leit móðurinnar að sjálfri sér.

Steinunn Sigurðardóttir les skáldsögu sína sem kom út 1995.

Konan við 1000 gráður eftir Hallgrím Helgason

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Útvarpsspilari | iTunes

Herbjörg María Björnsson er áttræð og farlama og býr ein í bílskúr í austurborg Reykjavíkur. Eini félagsskapur hennar er fartölvan og gömul handsprengja sem hefur fylgt henni frá stríðsárunum. Hún leggur drög að dauða sínum og pantar tíma í líkbrennslu um leið og hún hjalar við minnisguðinn góða sem aldrei bregst. Samferðafólk, atburðir og uppátæki frá viðburðaríkri ævi rifjast upp og afhjúpa lífshlaup óviðjafnanlegs ólíkindatóls.

Hallgrímur Helgason les skáldsögu sína sem kom út 2011.

Elín, ýmislegt eftir Kristínu Eiríksdóttur

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Útvarpsspilari | iTunes

Elín býr til leikmuni og gervi fyrir kvikmyndir og leikhús og þó hún sé komin yfir sjötugt lifir hún enn fyrir vinnuna. Hún býr ein og veit ekki af fortíðinni sem leynist í kössum úti í bæ. Dag einn birtast þeir á stofugólfinu hennar.

Þegar Elín fer að vinna við sýningu á nýju leikriti eftir unga vonarstjörnu, Ellen Álfsdóttur, vitjar fortíðin hennar á ný. Leiðir þeirra tveggja hafa áður legið saman við hræðilegar kringumstæður, þó að önnur muni ekki eftir því og hin sé í þann veginn að gleyma því.

Kristín Eiríksdóttir les skáldsögu sína sem kom út 2017.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

„Hvaða fífl sem er getur sagst ætla að virkja“

Bókmenntir

Skiljanleg reiði Steinunnar yfir dauðastríði jökulsins

Bókmenntir

Bók Kristínar á meðal bestu heimsbókmennta ársins

Bókmenntir

Helsta ógnin við íslenska tungu er tungusófinn