Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Jól, umhverfi og heilsa

21.12.2015 - 15:00
Mynd: Pixabay / Pixabay
Hollar ábendingar frá Stefáni Gíslasyni í jólapistli sem líka má lesa hér að neðan.

Nú eru sennilega flestir „búnir að öllu fyrir jólin“ eins og það er gjarnan orðað, og því ef til vill svolítið seint að fara að velta fyrir sér umhverfisþáttum jólaundirbúningsins. En jólahaldið sjálft hefur líka sín áhrif, bæði á umhverfi, samfélag, fjárhag og heilsu, og því er enn nógur tími til að gera upp við sig hvernig best sé að standa að því.

 

Áður en lengra er haldið er ástæða til að staldra aðeins við orðalagið „að vera búinn að öllu fyrir jólin“. Það eru nefnilega, mér vitanlega, ekki til nein jólalög önnur en þau sem fólk hlustar á í þartilgerðum tækjum eða á tónleikum. Alla vega skilar leitarorðið „jólalög“ engum niðurstöðum þegar flett er upp í Lagasafni Alþingis. Fólki ber sem sagt engin skylda til að kaupa einhver ósköp af dóti, þrífa allt hátt og lágt og baka 17 sortir af smákökum. Þetta er bara val hvers og eins. Maður þarf ekki að gera neitt fyrir jólin nema það sem maður ákveður sjálfur að gera.

 

Það hefur færst í vöxt á allra síðustu árum að efnt sé til einhvers konar leynivinaleikja á vinnustöðum á aðventunni. Þetta getur verið bráðskemmtilegt en samt grunar mig að einhvers staðar þarna úti sitji fólk uppi með dót sem það fékk í leynivinagjöf á dögunum og hefur bókstaflega ekkert með að gera. Þetta dót kostaði sjálfsagt litla peninga, enda er hámarksupphæðin iðulega tilgreind í leikreglunum. En áhrif dótsins á umhverfið eru ekkert endilega í réttu hlutfalli við verðið. Það sama á við um jólagjafir. Þar gildir sú einfalda regla að dót sem maður hefur ekkert gagn af gerir ógagn. Þeir sem enn eiga eftir að kaupa einhverjar jólagjafir gætu haft þetta í huga og reynt að velja eitthvað gagnlegt til að auðlindum jarðar sé ekki sóað í tilgangsleysi. Og svo munum við bara eftir þessu í aðventuleikjum næsta árs og þarnæsta. Það er auðvelt að gleðja fólk með einhverju öðru en gagnslausu dóti.

 

Val okkar á kertum til að kveikja á um jólin er eitt þeirra atriða sem skipta talsverðu máli fyrir umhverfið og heilsuna. Í ljósi nýafstaðinnar loftslagsráðstefnu í París hlýtur t.d. að skjóta skökku við að brenna olíukertum um jólin. Stór hluti þeirra kerta sem við kaupum eru gerð úr parafíni sem er unnið úr olíu og hefur alla sömu galla frá umhverfislegu sjónarmiði og hver önnur jarðolía. Þegar parafínkertum er brennt er gróðurhúsalofttegundum sleppt út í andrúmsloftið, auk þess sem brennslunni fylgir sótmengun sem getur verið afar óholl fyrir þá sem una sér lengi við parafínkertaljós í lítt loftræstum vistarverum. Hitinn í kertaljósinu er nefnilega ekki nægur til að eyða nokkrum af skaðlegustu olíuefnunum. Og svo er olían auðvitað óendurnýjanleg auðlind í þokkabót.

 

Kerti úr hinum flokknum, þ.e.a.s. olíulausa flokknum, eru almennt mun ákjósanlegri frá umhverfislegu sjónarmiði, þó að uppruninn sé vissulega misjafn. Í þennan flokk falla kerti úr sojavaxi, býflugnavaxi og jafnvel tólg, svo eitthað sé nefnt. Algengasta hráefnið er þó stearín, sem er blanda af þremur mismunandi fitusýrum úr lífríkinu. Auðveldasta leiðin til að þekkja þessi kerti frá olíukertunum er að svipast um eftir Svansmerkinu, en til þess að kerti fái vottun Norræna svansins þurfa a.m.k. 90% hráefnanna að vera endurnýjanleg, sem þýðir að kerti úr parafíni fást ekki vottuð. Ilmefni eru ekki leyfð í Svansmerktum kertum, þar sem þau geta verið ofnæmisvaldandi, nokkur önnur óholl og mengandi efni eru líka á bannlista, og einnig eru gerðar kröfur um hámarks sótmengun. Stearínkerti eru einmitt þeim eiginleikum gædd að þau ósa ekki, sóta ekki, renna ekki niður og bogna ekki. Þarna, sem víðar, fara saman hagsmunir umhverfis og heilsu.

 

Matvæli eru eitt af því mikilvægasta í jólahaldinu hvort sem horft er á málið frá umhverfislegu eða heilsufarslegu sjónarmiði og óneitanlega kemur hugtakið „matarsóun“ þar mjög við sögu. Okkur hættir nefnilega til að útbúa allt of mikinn mat, sem endar svo að hluta til í ruslatunnunni þrátt fyrir góðan ásetning um að nýta afgangana vel þessi jólin. Samkvæmt forrannsókn Landverndar sem kynnt var fyrir skemmstu henda reykvísk heimili a.m.k. 5.800 tonnum af mat og drykk árlega. Verðmæti þessara matvæla er talið vera a.m.k. 4,5 milljarðar króna, sem samsvarar um 150 þúsund krónum fyrir fjögurra manna fjölskyldu. Ekki liggur fyrir hversu stór hluti af þessu fellur til um jólin, en tölurnar segja manni alla vega að hér sé á ferðinni gríðarlega stórt hagsmunamál, bæði fyrir umhverfið og fjárhag heimilanna. Heilsa okkar sjálfra skiptir líka miklu máli í þessu sambandi, enda er það í sjálfu sér álitamál hvar mörkin liggja á milli ruslatunnunnar og eigin líkama. Ofát er líka matarsóun.

 

Í síðustu viku sögðu fjölmiðlar hérlendis og erlendis frá nýrri rannsókn vísindamanna við Stony Brook háskólann í New York þar sem fram kom að rekja mætti allt að 90% krabbameinstilfella til utanaðkomandi þátta á borð við mengun, útfjólubláa geislun, streitu og neysluvenjur, t.d. í sambandi við mataræði og hreyfingu. Þetta er gott að hafa í huga þegar jólahátíðin fer í hönd. Eins og maðurinn sáir mun hann uppskera, eins og það er orðað einhvers staðar. Við ráðum ekki öllu því sem gerist í eigin lífi, en hver er þó sinnar gæfu smiður langt umfram það sem viljum stundum trúa.

 

Kínverskt máltæki segir að mörg lítil verk sem margt lítið fólk vinnur á mörgum litlum stöðum geti breytt heiminum. Endurnotkun á jólapappír er dæmi um eitt slíkt verk. Vissulega eru ekki til nein jólalög sem banna fólki að tæta pappírinn utan af jólagjöfunum í offorsi og ryðja svo öllu út í tunnu þegar mesti atgangurinn er búinn. Samt gæti það vel verið tilraunarinnar virði að hægja aðeins á athöfninni, reyna að ná pappírnum sem minnst skemmdum utan af gjöfunum og hjálpast svo að þegar búið er opna alla pakkana að slétta úr pappírnum og rúlla honum upp til að nota á næstu jólum. Með þessu móti vinnst þrennt. Aðfangadagskvöldið lengist, auðlindirnar í pappírnum nýtast betur og útgjöldin um næstu jól lækka um nokkra hundraðkalla.

 

Jóladagarnir sem í hönd fara eru síðustu dagar ársins. Þann 1. janúar byrjar nýtt ár með nýjar áskoranir, þar sem „allt er á byrjunarreit“ eins og segir í kvæðinu. Á þeim tímamótum strengja margir áramótaheit eða setja sér markmið fyrir árið sem í hönd fer. Það hentar eiginlega ótrúlega vel að hafa áramótin svona í lokin á jólafríinu, því að þannig gefst góður tími til að íhuga hver áramótamarkmiðin eigi að vera. Þetta er eitthvað sem hver og einn þarf að gera upp við sig, en ef menn vilja setja sér markmið sem eru góð bæði fyrir umhverfið og heilsuna, þá ættu þau helst að vera sértæk, mælanleg og tímasett og hafa í för með sér varanlegar breytingar á neysluvenjum og lífstíl. Lífið er nefnilega ekkert átaksverkefni. 

leifurh's picture
Leifur Hauksson
dagskrárgerðarmaður