Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Jökulsá á Fjöllum líklegur farvegur hlaups

18.08.2014 - 15:12
Mynd með færslu
 Mynd:
Jarðvísindamenn telja líklegt að jökulhlaup vegna eldsumbrota í Bárðarbungu fari niður farveg Jökulsár á Fjöllum, sem rennur undan Dyngjujökli í norðanverðum Vatnajökli. Enn er mikil skjálftavirkni í kringum Bárðarbungu, en dregið hefur úr skjálftum frá því hrina stóð yfir skömmu fyrir hádegi.

Fulltrúar frá Almannavarnardeild Ríkislögreglustjóra eiga fund með viðbragðs- og hagsmunaaðilum klukkan fjögur í dag vegna ástandsins í norðvestanverðum Vatnajökli. Vísindaráð Almannavarna kom saman í hádeginu, og þar var ákveðið að viðbúnaðarstig Veðurstofunnar vegna flugumferðar yrði hækkað í appelsínugult.

Martin Hensch, jarðeðlisfræðingur hjá Veðurstofunni, segir að heldur hafi dregið úr jarðskjálftavirkni síðustu klukkutímana, eftir að öflug hrina kom um ellefuleytið í morgun og stóð í um klukkutíma. Virkni er þó áfram mikil, mest austur af Bárðarbungu. Sterkustu skjálftarnir hafa hins vegar verið við brún Dyngjujökuls, skammt austur af Kistufelli. 

GPS-mælingar á Dyngjuhálsi, í Hamrinum í Vatnajökli og í Vonarskarði sýna talsverða hreyfingu á jarðskorpunni á þessum slóðum og staðfesta í raun kvikuhreyfingar undir yfirborði jarðar. Engin ummerki eru þó um að kvikan hafi komist upp á yfirborðið; skjálftar eru enn á talsverðu dýpi og gosórói kemur ekki fram á mælum Veðurstofunnar.