Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Jökullinn að gera sig kláran

Mynd: Veðurstofa Íslands / Veðurstofa Íslands
Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur segir að Öræfajökull sé að gera sig kláran í gos en ómögulegt sé að segja til um hvenær af gosi verði. Gosið í jöklinum, sem varð á 14 öld, er stærsta gos sem orðið hefur í Evrópu í tvö þúsund ár.

Gos hefur orðið í Öræfajökli tvisvar sinnum frá því að Ísland byggðist. Það fyrra var 1362 og það seinna 1727. Gosið 1362 kemst rækilega á blöð eldgosasögunnar. Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur hjá Háskóla Íslands segir að gosið sé klárlega það stærsta sem orðið hefur á Íslandi og með þeim stærstu í Evrópu.

Þá mun þetta gos vera stærsta gos eftir Vesúvíus 79.

Gosið í Vesúvíusi varð árið 79 og það þekkja flestir vegna þess að borgin Pompei fór á kaf vegna gjósku sem rigndi yfir hana. Ármann hefur ásamt Þorvaldi Þórðarsyni rannsakað gosið í jöklinum 1362. Og þeir telja sig nú hafa nokkuð góða mynd af því sem gerðist. Þeir telja að í gosinu hafi svokölluð gusthlaup eða öskuský komið á ógnarhraða niður hlíðar fjallsins.

Við sjáum alls staðar sem við förum að þau eru í byrjun goss. Þeim fylgir gjóskuflóð. Það er meira efni í þeim og þetta eru sjóðheit ský sem koma niður fjallshlíðarnar á 100 til 150 kílómetra hraða.

Menn ættu að komast af svæðinu

Gosið eirði engu því talið er að bæði skepnur og menn hafi látist í Öræfasveit sem þá hét Litla-Hérað. Talið er að 200 til 300 manns hafi búið þar. Ármann segir að aðdragandinn að gosi sé nokkur og við núverandi aðstæður segir hann að það gefist tími til að vara við.

Í versta tilfelli þar sem gosmökkur rís upp og byrjar að falla saman erum við að tala um einhverja klukkutíma. Menn ættu alveg að geta komið sér út af svæðinu á þeim tíma.

Brennandi heit hlaup

Í gosinu 1362 ruddist gríðarlega mikið af gosefnum upp úr iðrum jarðar eða 5 til 10 rúmkílómetrar. Vindur var þó hagstæður en gjóska og vikur dreifðist um stórt svæði.

Gosum í Öræfajökli fylgja líka hlaup sem bresta á með skömmum fyrirvara. Gjóskuhlaupin sem eru brennandi heit bræða jökulinn á leið sinni niður hlíðarnar. Hlaupið sem varð í gosinu 1727 hafði þá sérstöðu að það var sjóðandi heitt.

Það er eiginlega eina hlaupið sem vitum um að sé það heitt að þeir sem lentu í því skaðbrunnu.

Er að gera sig kláran

En hvað er að gerast í jöklinum núna? Það hefur orðið vart við aukna skjálftavirkni. Myndast hefur ketill á snjóbungunni sem er væntanlega vegna jarðhita sem náð hefur að bræða ísinn. 

Við vitum það að hann er farinn af stað. Hann er að gera sig kláran í gos. Það er alveg klárt. Svo kemur bara í ljós hve lengi hann er að vakna. Þetta er stórt og mikið eldfjall. Stendur nokkuð langt frá heita reitnum. Það er kalt en ekki heitt eldfjall. Þannig að fyrir kvikuna að komast upp er átak. Það þýðir að skjálftavirkni þarf að aukast töluvert. Hins vegar er mjög erfitt að segja til um hversu langan tíma það tekur. Eyjafjallajökul, 16 til 18 ár. Það má vel vera að það taki Öræfajökul ekki nema nokkra mánuði að skila sér í gos en það verður bara að koma í ljós.

 

Nánar er rætt við Ármann Höskuldsson í Speglinum.

 

 

 

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV