John Snorri náði á topp K2

28.07.2017 - 10:59
Mynd með færslu
 Mynd: Lífsspor
John Snorri Sigurjónsson fjallgöngumaður náði á topp K2 skömmu fyrir klukkan ellefu að íslenskum tíma. Hann er fyrsti Íslendingurinn til að reyna við og komast á topp þessa næsthæsta fjalls jarðar.

John Snorri og ferðafélagar hans lögðu af stað um klukkan sex í gær að íslenskum tíma. Þeir vonuðust til að vera komnir á toppinn klukkan fimm í morgun. Ferðin reyndist mun erfiðari en göngumennirnir höfðu vonast til. Þeir voru því ekki komnir á topp fjallsins fyrr en sex klukkustundum seinna en þeir stefndu að. Þá höfðu þeir verið sautján tíma á ferðinni upp fjallið.

Reipi göngumanna dugðu ekki alla leið á toppinn og þurftu þeir að nota gömul reipi sem þeir fundu á fjallinu á hluta leiðarinnar. Að lokum bundu þeir sig saman og komust þannig lokaspölinn á toppinn. John Snorri og félagar fögnuðu skamma stund á toppnum en lögðu svo af stað niður. Sú leið er erfið og hættuleg og viðbúið að það taki langan tíma að komast niður í búðir áður en þeir geta hvílt sig.

Hér er viðtal við John Snorra á toppnum.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi