Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Jóhanna hratt skriðunni af stað

08.01.2019 - 11:30
Mynd: Jóhanna Þorsteinsdóttir / Jóhanna Þorsteinsdóttir
Tryggingastofnun stefnir á að ákvörðun um endurgreiðslur til öryrkja, sem hafa ekki fengið fullar bætur vegna skerðingar á búsetuhlutfalli, liggi fyrir í lok janúar. Stofnunin hefur unnið að lausn málsins í samvinnu við velferðarráðuneytið allt frá því í júní í fyrra þegar umboðsmaður Alþingis komst að þeirri niðurstöðu að reiknireglur TR ættu sér ekki viðhlítandi stoð í lögum.

Velferðarráðuneytið hefur komist að þeirri niðurstöðu að endurgreiða beri öryrkjum sem hafa fengið skert örorkumat og bætur vegna búsetu í öðru landi á Evrópska efnahagssvæðinu. Með þessu fellst ráðuneytið á túlkun umboðsmanns Alþingis  sem komst að þeirri niðurstöðu að reiknireglur Tryggingastofnunar ættu sér ekki viðhlítandi lagastoð né heldur stoð í almannatryggingareglugerð Evrópusambandsins. 

Hófst með máli Jóhönnu

Umboðsmaður tók málið til umfjöllunar þegar Jóhanna Þorsteinsdóttir leitaði til hans þar sem hún var ósátt við skertar örorkubætur frá Tryggingastofnun. Fjallað var um mál Jóhönnu í Speglinum í nóvember. Hún flutti með foreldrum sínum til Danmerkur 2005 þegar hún var 16 ára. Þegar hún var 18 ára veiktist hún og varð óvinnufær vegna geðrænna vandamála. Hún ákvað að flytja heim til Íslands 2010. „Ég var ein í Danmörku og farin að veikjast mjög mikið. Ég vildi fara til Íslands og vera með fjölskyldu minni og fá aðstoð á Íslandi,“ sagði Jóhanna í viðtali við Spegilinn.

Þegar heim var komið var hún metin með fulla örorku og sótti um bætur. Vegna búsetu sinnar í Danmörku í fimm ár voru henni reiknuð 47% af fullum bótum og það sætti hún sig ekki við. Til að flækja málið aðeins sótti hún um að fá bætur frá því að hún kom til Íslands en bætur hennar voru upphaflega reiknaðar frá 2013. Við það breyttist búsetuhlutfallið henni í óhag og féll niður í 21%. Sú niðurstaða varð til þess að hún fór með mál sitt til umboðsmanns.

Búsetuhlutfallið

Þetta snýst um svokallað búsetuhlutfall. Til að ná fullu búsetuhlutfalli þarf að ná 40 ára samanlagðri búsetu á Íslandi frá 16 til 67 ára aldurs. Til að skýra það var tekið dæmi í Speglinum um mann sem hefur búið í 10 ár í Danmörku, flytur heim og verður öryrki eftir 10 ára búsetu á Íslandi. Hann er þá 36 ára og á 31 ár í 67 ára aldur. Hann næði því 41 árs búsetuhlutfalli og ætti að fá fullar bætur að mati Öryrkjabandalagsins. Hann fær hins vegar aðeins 63% bætur. Reiknireglan er sú að vegna 10 ára búsetu í Danmörku eða öðru landi í EES og 10 ára búsetu á Íslandi er búsetuhlutfallið metið 63% til frambúðar. Hann á sem sagt rétt á rúmlega hálfum bótum vegna  þessara 10 ára í Danmörku.

Sömu reglur gilda reyndar um ellilífeyrisþega sem hafa búið í öðrum löndum. Þeir fá ekki fullar bætur frá Tryggingastofnun ef þeir ná ekki 40 ára búsetu samanlagt á Íslandi. Það er gert ráð fyrir að þeir, og öryrkjar, fái líka bætur frá því landi eða þeim löndum sem þeir bjuggu í. Almennt er það þannig þegar kemur að ellilífeyrisþegum sem hafa verið í vinnu annars staðar. Í tilfelli öryrkja getur málið verið snúið. Örorkubætur geta verið með öðrum hætti t.d. í Danmörku þar sem tekið hefur verið upp starfsgetumat. Þar fá öryrkjar yngri en 40 ára ekki hefðbundnar örorkubætur eins og tíðkast hér á landi.

TR unnið að málinu 

Í minnisblaði  velferðarráðuneytisins, sem stílað er á stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis 29. nóvember, kemur fram að ráðuneytið hafi fallist á niðurstöðu umboðsmanns Alþingis og þegar upplýst Tryggingastofnun um málið. Þess má geta að aðstoðarmaður félagsmálaráðherra er jafnframt stjórnarformaður Tryggingastofnunar. Stofnunin hefur því vitað um niðurstöðuna í nokkurn tíma og þetta eru ekki ný tíðindi þar á bæ þó að málið hafi skotið upp kollinum nú. Í fréttatilkynningu frá stofnuninni í dag kemur fram að málið hafi verið í skoðun frá því að umboðsmaður birti álit sitt í júní í fyrra. Stofnunin hafi í samvinnu við  velferðarráðuneytið, sem nú heitir félagsmálaráðuneyti, unnið að því að útfæra leiðir til að bregðast álitinu. Bent er á að úrskurðarnefnd almannatrygginga og núverandi úrskurðarnefnd velferðarmála hafi í gegnum tíðina staðfest úrskurði TR um búsetuútreikninga örorkulífeyrisþega.

Tveir eða fimm milljarðar

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis vísaði málinu til velferðarnefndar Alþingis sem óskaði eftir svörum frá ráðuneytinu um áhrif búsetutíma á réttindi örorkulífeyrisþega og leiðréttingar greiðsla.

Í bréfi frá ráðuneytinu kemur fram að Tryggingastofnun muni endurreikna greiðslur til allra öryrkja sem hafa fengið skert búsetuhlutfall vegna búsetu í öðrum löndum á evrópska efnahagssvæðinu. Vegna laga um fyrningu kröfuréttinda  er það niðurstaða ráðuneytisins að endurgreiða fjögur ár aftur í tímann. Á síðasta ári eigi þetta við um rúmlega eitt þúsund öryrkja sem eigi rétt á hærri greiðslum. 546 milljónir króna verði endurgreiddar. Vegna ársins 2017 sé heildarfjárhæðin um 529 milljónir og svipaðar upphæðir vegna áranna 2016 og 2015. Þetta séu samtals rúmlega tveur milljarðar króna. Öryrkjabandalagið telur að endurgreiða eigi 10 ár aftur í tímann og þá er verið að tala um fimm milljarða króna.

Í fréttatilkynningu frá Tryggingastofnun kemur fram að stefnt sé á að niðurstaða liggi fyrir í lok janúar. Í framhaldi af því verði byrjað að vinna hvert mál fyrir sig.

Ekki er óviðbúið að breyta þurfi einhverjum lögum vegna málsins. Velferðarnefnd stefnir á að halda fund í næstu viku með fulltrúum Öryrkjabandalagsins, félagsmálaráðuneytisins og Tryggingastofnunar.

 

 

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV