Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Jesús bæði hommi og lesbía

11.08.2013 - 13:42
Mynd með færslu
 Mynd:
Séra Sigríður Guðmarsdóttir prestur í Guðríðarkirkju sagði í útvarpsmessu fyrir hádegi í tilefni Hinsegin daga að fólk túlki krossferil Jesú Krists og endurspegli í sinni baráttu og lífi. Í þessum skilningi sé Jesús hommi og lesbía.

Þannig hafi til dæmis engum dottið í hug að velta því fyrir sér þegar Hallgrímur Pétursson samsamaði líkþrá sína við Jesú Krist hvort Jesús hafi verið líkþrár eða ekki.

Það er vegna þess að hugmynd Hallgríms um líkindi krossferils síns og krossferils lausnarans fjallar um þann Krist sem við túlkum og endurtúlkum í lífi okkar og baráttu, öld eftir öld. Barátta hinsegins fólks og andspyrnusögur þeirra í fortíð og nútíð eru dýrmætar og þær eru mikils virði .Þær má spegla í lífsferli og krossferli lausnarans. Á sama hátt og við megum mála myndir af konunni Kristur á krossinum, hinum þeldökka Kristi og Kristi krossfestum í hjólastól. Í þessum skilningi er Jesús hommi, Jesús er kona, Jesús er lesbía, Jesús er transgender einstaklingur, Jesús er intersex, Jesús er transsexúal, heterósexúal, asexúal og pansexúal. Ef við ætlum að horfast í augu við gagnkynhneigðarhyggju heimsins og kirkjunnar þá þurfum við að lesa lífið stundum neðanfrá og utanfrá.“ Þetta sagði Sigríður í predikun sinni.

Hlýða má á messuna í heild sinni hér.