Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Jesú Kristur, fullveldið og Aron Einar

Mynd: Tomasz Kolodziejski / RÚV

Jesú Kristur, fullveldið og Aron Einar

18.03.2018 - 12:40
Hvað eiga Jesú Kristur, íslenska fullveldið og Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska karlalandsliðins í knattspyrnu sameiginlegt?

Þeirri spurningu verður ekki svarað í stuttu máli, en segja má að hún hverfist um hugmyndina um þjóðarlíkamann og sé viðfangsefni í fyrsta þætti af tíu um hugmyndasögu fullveldisins í umsjón Marteins Sindra Jónssonar sem nefnast „Hundrað ár, dagur ei meir“.

Hugmyndir eru síður en svo óáþreifanleg fyrirbæri, þvert á móti taka þær sér ætíð bólfestu í hverjum samtíma með einhverjum hætti. En um leið teygja þær sig aftur í aldur - og fram um veg.  Í þáttunum “Hundrað ár, dagur ei meir” sem engan veginn má líta á sem tæmandi umfjöllun um hugmyndir tengdar fullveldinu verða tilteknir hugmyndastraumar fullveldissögunnar raktir til fortíðar og framtíðar með hliðsjón af einum ákveðnum viðburði sem telja má til marks um þær hugmyndirnar sem um ræðir.

Í hverjum þætti verður gengið út frá einni tiltekinni dagsetningu frá hverjum áratug fullveldisins og í fyrsta þættinum er staldrað við 1. desember 2017. Þessi dagsetning er ekki aðeins merkileg fyrir þær sakir að þá fögnuðu Íslendingar 99 ára afmæli fullveldisins heldur var íslenskt landslið í fyrsta sinn dregið í riðla á HM í fótbolta.

Samfélagið sem líkami

Segja má að viðfangsefni þáttarins sé hugmyndin um samfélagið sem líkama. Sú hugmynd er ævaforn, hún rekur rætur sínar aftur til kristni og leikur gífurlega mikilvægt hlutverk í hugmyndum um einveldi evrópskra konunga. Í raun er þessi hugmynd þétt samofin þeim fullveldishugmyndum sem Íslendingar þiggja í arf með fullveldistökunni 1918 en við þekkjum þennan samfélagslega líkama best undir heitinu þjóðarlíkaminn.

Þó okkur sé hugtakið ekki svo tamt í dag, var það lykilhugtak við upphaf fullveldistímans, til dæmis grípur Björn M. Olsen fyrsti rektor Háskóla Íslands til hugtaksins þegar hann ræðir um hlutverk hins nýstofnaða háskóla við stofnun hans árið 1911:

“Út frá góðum háskólum ganga hollir andlegir straumar til hinna ungu menntamanna og frá þeim út í allar æðar þjóðarlíkamans. Þessir straumar hafa vekjandi  áhrif á þjóðernistilfinninguna en halda henni þó í réttum skorðum, svo að hún verður ekki að þjóðdrambi eða þjóðernisrembingi. Sannmenntaður maður elskar þjóðerni sitt og tungu en hann miklast ekki af þjóðerni sínu, fyrirlítur ekki aðrar þjóðir né þykist upp yfir þær hafinn.”

Þjóðarlíkaminn verður varla fjarri góðu gamni þegar íslenska karlalandsliðið keppir á HM í sumar - en það er fjölmargt í sögu þeirrar hugmyndar sem er einkar mikilvægt að snerta á í tilefni af 100 ára afmæli fullveldisins. Hér að neðan má lesa fyrsta hluta þeirrar hugmyndasögu sem sögð er í þættinum "Hundrað ár, dagur ei meir."

Mynd með færslu
 Mynd: Flickr
Líkami Jesú Krists kemur við sögu í þættinum

Þjóðarlíkaminn kemst til valda

Árið 1651 kom út verk sem skipta átti sköpum fyrir stjórnmálahugsun á Vesturlöndum, þetta var verkið Leviathan eftir enskan mann að nafni Thomas Hobbes. Nafn sitt dró verkið af forsögulegu hafskrímsli sem sagt er frá í Biblíunni, en um 1600 er farið að nota það í yfirfærðri merkingu um valdamikla einstaklinga eða fyrirbæri.

Verkið markaði þáttaskil í sögu fullveldishugmynda í Evrópu. Þar ræðir Hobbes um það hver skynsamlegasta stjórnskipun í mannlegu samfélagi hljóti að vera. Sú stjórnskipun byggir á óskoruðu yfirvaldi, sem hefur æðst völd samfélagsins í höndum sér og kemur í veg fyrir að stríðandi hagsmunir ólíkra samfélagsafla hleypi samfélagssáttmálanum í bál og brand – í borgarastyrjöld þar sem allir berast á banaspjótum gegn öllum hinum.

Hobbes lýsir því hvernig frumskógarlögmálið hljóti að ráða ríkjum í samskiptum manna á milli, komi þeir sér ekki saman um að framselja náttúrulegt frelsi sitt valdhöfum í samfélaginu hverju sinni. Hobbes fjallar ekki sérstaklega um hvernig þetta framsal skuli eiga sér stað, hér er engan vegin komin til sögunnar hugmynd um lýðræðislegar kosningar eða fulltrúaval. Þvert á móti leggur Hobbes ekki annað til en að lykillinn að farsælu stjórnarfari sé sá að þegnarnir séu reiðubúnir að tilheyra ríkinu sem þegnar þess. Saman komnir mynda þegnarnir afskaplega öfluga samfélagsheild – í raun valdamikinn einstakling: Leviathan.

Inntak verksins er fangað með áhrifaríkum hætti á forsíðu bókarinnar. Þar gnæfir Leviathan sem gríðarstór mannslíkami yfir ökrum og hæðum. Mannslíkaminn ber kórónu á höfði, í vinstri hendi hefur hann veldissprota og í þeirri hægri sverð. Hrokkið hár flæðir undan kórónunni, og tignarlegt yfirbragðið undirstrikar valdsmannslegt yfirvaraskegg og hökutoppur.

Það fer ekki á milli mála að hér er konungur á ferð, en það sem stingur ef til vill í stúf, fyrir utan það hversu stór hann er, er að líkami hans er ekki sveipaður purpuraklæðum eða klæddur í brynju. Þess í stað er mikill mannfjöldi samankominn í líkama konungsins - líkaminn er mannsöfnuður.

„Non est potestas Super Terram quae Comperatur ei“, er ritað ofan við kórónu konungsins, Ekkert vald á jörðu jafnast á við hann, merkja þessi orð sem höfð eru úr Jobsbók og lýsa skrímslinu Leviathan.

Á þessari forsíðu birtist í öllu sínu veldi líkami hinnar fullvalda samfélagsheildar – sem lengi framan af laut valdi konunga. Franska byltingin árið 1789 hratt af stað miklum þjóðfélagsbreytingum í Evrópu sem bundu enda á einveldi konunga víðast hvar. Þær urðu ekki mikið táknrænni, aftökur gömlu valdhafanna, en með fallöxinni – konungurinn var gerður höfðinu styttri – og þar með samfélagslíkaminn.

Nú tóku limirnir völdin, gjarnan í nafni þeirra þjóðernishugmynda sem ruddu sér til rúms á 18. og 19. öld. Þjóðarlíkaminn var kominn til valda..

Mynd með færslu
 Mynd:
Samfélagslíkaminn eins og hann birtist á forsíðu verksins Leviathan eftir Thomas Hobbes