Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Játa óafsakanleg mistök og segja af sér

Mynd með færslu
Sauðárkrókur. Mynd: Jóhannes Jónsson - RUV.IS

Játa óafsakanleg mistök og segja af sér

27.02.2018 - 10:30
Formaður og varaformaður knattspyrnudeildar Tindastóls hafa sagt af sér í kjölfar umfjöllunar Stundarinnar um fyrrverandi starfsmann félagsins sem tvívegis var kærður fyrir kynferðisbrot. Í yfirlýsingu frá mönnunum, Bergmanni Guðmundssyni og Guðjóni Erni Jóhannssyni, segja þeir að við ráðningu mannsins í barna- og unglingastarf félagsins þeim hafi orðið á mikil og óafsakanleg mistök sem sennilega verði aldrei hægt að bæta fyrir.

Stundin fjallaði um málið í nýjasti tölublaði sínu sem kom út á föstudaginn. Þar var rætt við 12 konur sem lýstu afleiðingum af framgöngu mannsins, sem var vinsæll knattspyrnumaður hjá félaginu. Þær sögðust hafa verið dæmdar af samfélaginu á Sauðárkróki. Kærum á hendur manninum var vísað frá.

Vilja sýna þolendum virðingu með afsökunarbeiðninni

Í yfirlýsingu Bergmanns og Guðjóns, sem birtist á Facebook-síðu knattspyrnudeildar Tindastóls í gærkvöld, segja þeir ljóst að deildinni hafi orðið á mikil mistök. „Mistök sem sennilega verður aldrei hægt að bæta fyrir.“

„Maðurinn er ekki dæmdur fyrir nein brot, en slíkt afsakar ekki í þessu tilviki að við gerðum okkur ekki á neinn hátt grein fyrir því hversu miklum vonbrigðum við vorum að valda félagsmönnum okkar og þeim þolendum sem hafa nú stigið fram og sagt sögu sína,“ segir í yfirlýsingunni.

„Því miður getum við ekki breytt því sem liðið er eða hvað þá tekið til baka þær ákvarðanir sem hafa verið teknar í fortíðinni. En við vonum að við getum á einhvern hátt sýnt sársauka þolenda virðingu með því að biðjast afsökunar á ákvörðunum okkar og reyna að leggja okkar af mörkum til þess að félagið verði vel í stakk búið til taka RÉTT á málum í framtíðinni,“ segir þar enn fremur.

Þá er í yfirlýsingunni vikið að máli annars knattspyrnumanns hjá félaginu sem í fyrra hlaut dóm fyrir kynferðisbrot gegn stúlku undir lögaldri. Í kjölfar dómsins lýsti Tindastóll yfir stuðningi við hann – hann nyti trausts félagsins sem ætlaði að gera allt til að aðstoða hann.

Í yfirlýsingu Bergmanns og Guðjóns í gær segja þeir að með þessu hafi deildinni einnig orðið á „stór mistök“. „Sú yfirlýsing átti ekki rétt á sér og þykir okkur leitt að hafa ekki staðið með okkar fólki, hafa valdið því vonbrigðum og þolendum óþarfa sársauka,“ segir í yfirlýsingunni.

Setja siðareglur og votta samúð

Aðalstjórn Tindastóls sendi einnig frá sér yfirlýsingu í gær, áður en Bergmann og Guðjón sendu sína frá sér. Í yfirlýsingu aðalstjórnar segir að konurnar sem stigu fram í Stundinni eigi skilið þakklæti fyrir mikinn styrk og skömmin sé gerandans. Á næsta fundi aðalstjórnarinnar með formönnum deilda félagsins verði farið yfir ýmsar áætlanir og stefnur sem kynntar verða á næsta ársþingi: siðareglur, jafnréttisstefnu, fræðslu- og forvarnastefnu og viðbragðsáætlun vegna aga- eða ofbeldisbrota, eineltis og kynferðislegrar og kyndbundinnar áreitni.

Þá ákvað aðalstjórn Ungmennasambands Skagafjarðar á fundi sínum 21. febrúar að lýsa yfir vilja félagsins til að eiga samtarf við íþróttahreyfinguna um að tryggja ofbeldislausa íþróttaiðkun fyrir alla. Í yfirlýsingu ungmennasambandsins frá 23. febrúar er #metoo-umræðunni fagnað, stjórnin segist dást að hugrekki þeirra sem stigið hafi fram og votti þolendum samúð sína. Yfirlýsingin er ekki viðbragð við umfjöllun Stundarinnar, enda send áður en blaðið kom út.