Jarðvinnu við Kröflulínu hætt í bili

22.11.2016 - 12:05
Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Jarðvinnu við Kröflulínu 4, frá Kröflu að Þeistareykjum, hefur nú verið hætt vegna vetrarveðurs. Ekki er líklegt að þær fari aftur af stað fyrr en í vor. Landvernd hefur kært útgáfu nýs framkvæmdaleyfis fyrir línuna og krefst þess að framkvæmdirnar verði stöðvaðar.

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála tekur nú fyrir kæru náttúruverndarsamtakanna Landverndar og Fjöreggs þar sem útgáfa nýs framkvæmdaleyfis fyrir Kröflulínu 4 er kærð.

Taka kröfu um framkvæmdastöðvun fyrst fyrir

Samkvæmt upplýsingum frá formanni úrskurðarnefndarinnar, Nönnu Magnadóttur, krefjast samtökin þess að framkvæmdir við Kröflulínu verði stöðvaðar. Samtökin fóru fram á hið sama þegar þau kærðu fyrra framkvæmdaleyfið og úrskurðarnefndin féllst á þá kröfu. Líklegt er að nefndin taki afstöðu til þeirrar kröfu í þessari eða næstu viku og í framhaldinu fær efni kærunnar sjálfrar meðferð. Það snýr fyrst og fremst að því að umhverfismati hafi verið ábótavant og að jarðstrengir hafi ekki verið nægjanlega vel metnir.

Snjóþungt á línuleiðinni

Stöðvun framkvæmdarinnar í sumar setti hana í mikið uppnám því verktakar vildu nýta sér gott haust til framkvæmda. Viðbúið var að ekki yrði hægt að vinna þar frá því í desember og fram til vors vegna veðurs. Nú er svo komið að vetrarveður er skollið á og jarðverktakar Landsnets hafa því hætt framkvæmdum í bili og alls óvíst er hvenær þeir geta farið aftur af stað. Snjóþungt er á línuleiðinni og töluverð hlýindi þarf til svo að hægt verði að halda áfram.

Skútustaðahreppur gaf leyfið út í lok október og telur sveitarstjórnin sig hafa bætt úr því sem úrskurðarnefndin setti út á þegar hún felldi úr gildi fyrra framkvæmdaleyfið sem gefið var út í vor. Það gerðist eftir að Landvernd og Fjöregg kærðu útgáfu leyfisins, líkt og samtökin hafa gert nú.

Eignarnám í uppnámi

Fréttablaðið greindi svo frá því á laugardaginn að Landsnet hafi stefnt landeigendum í Reykjahlíð sem hafa ekki viljað veita fyrirtækinu yfirráð yfir því landi sem línan á að fara um. Fyrirtækið sé með heimild til eignarnáms og umráðatökurétt en landeigendur hafi þrátt fyrir það ekki leyft verktökum fyrirtækisins að fara inn á landið. Málið verður þingfest í héraðsdómi Norðurlands eystra í lok mánaðar.

Uppfært kl. 12:56: Samkvæmt upplýsingum frá Landsneti er það aðeins jarðvinna sem gert hefur verið hlé á. Enn er unnið að því að reisa möstur sem sett hafa verið saman þar sem jarðvinnu er lokið. Verið er að moka snjó frá svo að hægt sé að reisa möstrin.

Rögnvaldur Már Helgason
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi