Jarðskjálfti sem mældist 3,4 varð við Lokatind klukkan korter fyrir fjögur í nótt. Samkvæmt Veðurstofu Íslands hafa orðið nokkrir grunnir og smærri kippir á þessum slóðum undanfarna viku. Lokatindur er í Ódáðahrauni um það bil 25 kílómetra norðvestur af Öskju. Jarðskjálftar verða ekki oft á þeim slóðum. Upptök skjálftans voru á um það bil eins kílómeters dýpi sem þykir mjög grunnt. Jarðeðlisfræðingur á Veðurstofu segir að skjálftinn hafi verið stakur viðburður.