Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Jarðskjálfti um 4 að stærð við Grímsey

15.02.2018 - 20:52
Mynd með færslu
 Mynd: Snæfríður Ingadóttir - RÚV
Jarðskjálfti upp á 4,5 varð 11 kílómetra norð austur af Grímsey í kvöld. Skjálftinn fannst vel í eynni. Tveir aðrir skjálftar, yfir þremur að stærð hafa mælst í nágrenni við Grímsey í dag.

Um 800 skjálftar hafa orðið á þessum slóðum síðustu tvo sólarhringa. Öflug skjálftahrina hefur staðið þar yfir frá því í lok janúar. 

Sigurjón Jónsson, prófessor við Vísinda- og tækniháskóla Abdullah konungs í Sádí Arabíu, sagði í samtali við Spegilinn í dag að ítrekaðar skjálftahrinur geti verið fyrirboðar stærri skjálfta. Hrinan undanfarnar vikur hefur verið á Tjörnesbrotabelti sem er þekkt upptakasvæði stórra skjálfta.

Frétt uppfærð klukkan 21:27 - Fyrirsögn fréttarinnar var breytt eftir að nýjar upplýsingar voru birtar á vef Veðurstofu Íslands. Fyrri fyrirsögn var: Jarðskjálfti 4,5 að stærð við Grímsey.

Frétt uppfærð klukkan 23:03 - Skjálftinn var 4,1 að stærð og varð um 10 kílómetra aust norð austur af Grímsey. Hann er stærsti skjálftinn í þeirri skjálftahrinu sem hófst þar fyrir viku og stendur enn. Klukkan 19:28 varð skjálfti að stærð 3,2 á sömu slóðum. Í kjölfar 4,1 skjálftans fylgdu tveir skjálftar 3 að stærð. Veðurstofu Íslands hafa borist tilkynningar um að skjálftarnir hafi fundist í Grímsey. Hrinan er enn í gangi og ekki er hægt að útiloka að fleiri skjálftar, jafnvel stærri, fylgi í kjölfarið.