Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Jarðskjálfti norður af Goðabungu

12.08.2012 - 12:14
Mynd með færslu
 Mynd:
Jarðskjálfti upp á 2,7 að stærð varð rétt norður af Goðabungu í Mýrdalsjökli, um klukkan hálf níu í morgun. Nokkrir aðrir smærri skjálfar urðu um svipað leyti, sá stærsti þeirra 1,8 að stærð.

Mýrdalsjökull hefur haft fremur hægt um sig undanfarnar vikur, en í vor var nokkur skjálftavirkni þar, allt þar til tvö lítil hlaup komu niður Leirá í Kötlukrika og Emstrur, vestan við jökulinn. Þá datt þessi skjálftavirkni niður og GPS mælingar á Austmannsbungu sýndu minnkandi spennu í jarðskorpunni.

Skjálftinn í morgun er ekki stór, en þó 2,7 að styrkleika, og nokkrir aðrir skjálftar urðu um svipað leyti á þessum slóðum, norður og norðaustur af Goðabungu. Lítill sem enginn órói hefur komið fram á mælum í kringum Mýrdalsjökul í tengslum við þessa skjálfta, segir Benedikt Ófeigsson, jarðeðlisfræðingur á Veðurstofunni og engin aukning hefur mælst á leiðni í ám sem renna frá jöklinum. Þó hefur brennisteinslykt fundist af jökulvatni að undanförnu, til dæmis við Jökulsá á Sólheimasand og í Leirá í Kötlukrika.