Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Japönsk hönnun í Hafnarborg

Mynd: Hafnarborg / Hafnarborg

Japönsk hönnun í Hafnarborg

28.10.2017 - 13:55

Höfundar

Í dag opnar Hafnarborg sýningu á vegum menningarstofnunarinnar Japan Foundation, þar sem japönsk hönnun er í öndvegi:„Þetta er fyrst og fremst samtímahönnun, hönnun frá síðustu árum. Yngstu gripirnir eru frá 2014 en svo er líka aðeins sögulegt yfirlit yfir japanska hönnun frá 20. öld,“ segir Ágústa Kristófersdóttir, safnstjóri Hafnarborgar.

„Við vorum svo heppin að það var leitað til okkar og við beðin að hýsa sýningu frá Japan Foundation, menningarstofnun í Japan sem sér um að dreifa japanskri menningu víða um heim,“ segir Ágústa. Hún segir að aðstandendur sýningarinnar í Japan nálgist efnið út frá því að ákveðnir þættir sameini japanska hönnun: „og það sé einfalt form, og það sé hugsun fyrir tækni, það sé hugsunin um að auðvelda samskipti, og það sé einhverskonar fullkomnunarárátta.“  Hún segist taka undir að hlutirnir beri sameiginleg einkenni, af hlutunum á sýningunni að dæma og segir að ákveðinn einfaldleiki einkenni langflesta af þeim gripum sem eru á sýningunni, en að auki séu þeir klassískir. „Mér sýnist á því sem ég sé hérna sem er búið að taka upp úr kössunum að þetta gefi svolítið góða innsýn inn í japanskt líf, og lífsstíl.“

Sýningin endurhönnuð reglulega

Fjórir japanskir sýningarstjórar settu sýninguna saman, fyrst árið 2004, en Ágústa segir að sýningin hafi verið endurunnin og endurhönnuð með reglulegu millibili svo að hún verði ekki úrelt. Útgáfan sem sett er upp í Hafnarborg er frá árinu 2014.

„Það er upplifun manns að verið sé að gefa ákveðna mynd af Japan í gegnum þetta, verið að gefa ákveðna mynd af þessum svona einfalda en þó mjög tæknilega fullkomna lífsstíl. Ég verð að segja að við að sjá hlutina hérna og lesa efnið sem kemur með sýningunni þá langar mann svolítið að heimsækja Japan, þannig að þetta er alveg að virka fyrir mig allavega.“

OLYMPUS DIGITAL CAMERA
 Mynd: Hafnarborg

„Ekki verið að selja þér neitt“

„Klárlega er þetta, eins og það að fá inni í safni eins og Hafnarborg eða í söfnum sem þessi sýning hefur verið í erlendis, það færir þessu ákveðna vigt,“ segir Ágústa.  „Gestir koma, þeir njóta þess að horfa á gripina. Það er ekki verið að selja þér neitt, þú ert bara hér til þess að fá einhverskonar sjónræna og vitsmunalega upplifun, en ekki til að kaupa.“ Hún segir að það sé stór kostur og bætir við: „Þetta á að kveikja einhverja tilfinningu, einhverjar langanir hjá þér, þá væntanlega annað hvort til að fara og leita uppi hlutina og kaupa þá, til þess að bera meiri virðingu fyrir japönskum lífsstíl og japanskri hönnun, og kannski ekki síður til að skella þér og fara til Japan.“

Frá Kasakstan til Íslands

„Það er um það bil ár síðan við sömdum um að fá sýninguna hingað, og við vissum að áður en hún kæmi hingað, þá átti hún að vera í Kasakstan.“ Tæpur mánuður átti að líða frá því að sýningin í Kasakstan lokaði og þangað til hún átti að vera uppsett í Reykjavík. „Við reiknuðum það út að þetta væri alveg eðlilegur tími og japanska sendiráðið það sér alfarið um þetta. Síðan þegar fór að draga nær þá áttuðum við okkur á því að það var erfiðleikum bundið að koma sýningunni frá Kasakstan til Íslands í gegn, út frá Kasakstan.“ Ágústa segir að gripið hafi verið til þess ráðs að fá íslenska aðila til að sjá um flutning sýningarinnar: „Til þess að rétta út höndina frá þessari litlu eyju hérna í norðri, sem er kannski stundum erfitt að finna, og reyna að fá sýninguna hingað. Og hún rétt náði í hús, þannig að við gátum byrjað að opna kassana á mánudaginn.“

Mynd með færslu
 Mynd: Hafnarborg

 

Opnun á kjördag, annað árið í röð

„Við opnuðum á kjördag í fyrra; þá opnuðum við sýningu á verkum Egils Snæbjörnssonar. Þá hugsuðum við „Já, þetta gerist nú ekki aftur!““ Hún segir að alla jafna séu sýningarskrár frágengnar og fastsettar að minnsta kosti hálft ár fram í tímann. „Og svo allt í einu brestur bara á með kosningum. Og við veltum því fyrir okkur hvort að við ættum eitthvað að reyna að hnika þessu til en það var bara af ýmsum ástæðum erfitt. Það var ekki hægt að flýta þessu og það var erfitt að seinka þessu, þannig að við ákváðum bara að láta slag standa.“

Ágústa segist vona að Hafnfirðingar og nærsveitamenn verði komnir í sitt fínasta púss til að fara út að kjósa á kjördag „og þá koma þeir bara í Hafnarborg klukkan þrjú!“

Rætt var við Ágústu Kristjánsdóttur í Víðsjá á Rás 1.