Japan: Skilnaðarveislur æ vinsælli

21.06.2010 - 05:26
Mynd með færslu
 Mynd:
Fyrir nokkrum áratugum voru hjónaskilnaðir afar fátíðir í Japan en nú fjölgar þeim ár frá ári, í fyrra ákváðu 250 þúsund hjón að skilja. Þessi þróun hefur orðið vatn á myllu hugvitssamra veitingamanna, og annarra sem sjá ágóðaleið þar sem öðrum virðist sviðin jörð. Þannig er um Hiroki Terai, fyrrverandi farandsölumann, en hann stofnaði fyrir nokkru skilnaðarþjónustu sem sérhæfir sig í veisluhöldum fyrir hjón sem vilja skilja með pompi og prakt.

Stundum er endi bundinn á hjónaband í sátt og samlyndi, segir Terai, og bæði eiginmaður og eiginkona eru frelsinu fegin. Þá er ekkert því til fyrirstöðu að efna til sérstakrar athafnar þar sem hjónin eru spurð formlega hvort þau vilji segja skilið við makann og svara því játandi. Síðan er slegið upp veislu.

Viðskiptin blómgast hjá Terai, tugir hjóna hafa greitt honum jafnvirði 80 þúsund króna fyrir skilnaðarvígslu, og frelsisfagnað sem henni fylgir.

 

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi