Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Jákvæð áhrif af skuldaniðurfellingu

16.12.2013 - 18:38
Mynd með færslu
 Mynd:
Tillögur ríkisstjórnarinnar um niðurfellingu verðtryggðra skulda hafa jákvæð áhrif á lánshæfi Íbúðalánasjóðs, án þess að það komi niður á lánshæfi Ríkissjóðs Íslands.

Þetta er mat alþjóðlega matsfyrirtækisins Moody´s sem birti í dag álit sitt á skuldaniðurfellingatillögum sérfæðingahóps ríkisstjórnarinnar. Samkvæmt áætlun ríkisstjórnarinnar munu skuldir heimilanna lækka um 150 milljarða króna á á næstu fjórum árum og koma aðgerðirnar til framkvæmda um mitt næsta ár.

Í áliti Moody´s segir að skuldaafskriftirnar ættu ekki að hafa áhrif á fjármál ríkisins, þar sem þær verði fjármagnaðar með skatti á fjármálafyrirtæki. Hins vegar gætu stjórnvöld orðið af skatttekjum og þurft að leggja Íbúðalánasjóði til aukið fé. Aðgerðirnar ættu að hafa jákvæð áhrif á hagkerfið. Heimilin finni strax fyrir áhrifunum og við það aukist einkaneysla og kaupmáttur. Hærri verðbólga og hærri vextir geti þó dregið úr áhrifum aðgerðanna.

Íbúðalánasjóður er einn stærsti lánveitandi verðtryggðra íbúðalána. Aðgerðirnar ættu að koma honum til góða, svo lengi sem stjórnvöld geri ráðstafanir vegna aukinna uppgreiðslna af íbúðalánum. Aðgerðirnar hafi hins vegar neikvæð áhrif á bankana og þrotabú föllnu bankanna, þar sem skattar á þá muni fjármagna aðgerðirnar.