
Jafnréttismálaráðherra vill láta kjósa aftur
Umdeild kosning
Kjör í fimm af tólf stjórnum og nefndum sem Alþingi kaus í í síðustu viku uppfyllir ekki jafnréttislög, að mati Brynhildar Flóvenz, dósents í lögfræði við Háskóla Íslands, þar sem hlutfall kvenna nær ekki 40%.
Jón Steindór Valdimarsson, varaformaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, sagði í fréttum í gær að vinda þyrfti ofan af kjörinu. Brynjar Níelsson, formaður nefndarinnar, telur hins vegar jafnréttislög ekki hafa verið brotin.
„Ákaflega óheppilegt og klaufalegt“
Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, vill endurskoða kjörið. „Ég held að þetta sé ákaflega óheppilegt og klaufalegt, svo ekki sé fastar að orði kveðið,“ segir Þorsteinn.
Alþingi sjálft hafi staðið fyrir lagasetningu um kynjahlutföll í stjórnum fyrirtækja og stofnana með fleiri en 50 starfsmenn. Þess vegna sé ákaflega mikilvægt að þingið gangi á undan með góðu fordæmi, þegar kemur að skipan eigin stjórna og nefnda.
Ekki litið á heildarmyndina
Þorsteinn segir að þegar stjórn og stjórnarandstaða tilnefni fulltrúa hvor í sínu lagi vanti að gætt sé að jafnrétti. „Það virðist enginn hafa gáð að því hvernig heildarmyndin á þeim tilnefningum liti út, áður en það var síðan samþykkt á þinginu.“
Þorsteinn segist telja að allir hljóti að vilja setjast yfir þetta og laga. Hann vill að kosið verði upp á nýtt. „Já, kjósa þá bara aftur. Ganga bara úr skugga um það að þessi kynjahlutföll séu í lagi.“