Jafnréttismál áberandi á Lýsu

07.09.2018 - 14:36
Mynd með færslu
 Mynd: Sunna Valgerðardóttir - RÚV
Jafnréttismál og umræður þeim tengdar eru áberandi á Lýsu, rokkhátíð samtalsins, sem fer nú fram í Hofi. Jafnréttisstofa stendur meðal annars fyrir sófaspjalli um jafnrétti, þar sem tekist er á um lög, hugmyndir og áherslur. Framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu segir mikilvægt að stofnunin hafi heimildir til þess að fylgja lögum eftir með viðurlögum.

Geta hjúkrunarfræðingar pissað standandi?, Ójöfnuður á Norðurlöndum og umræður um jafnlaunavottun eru meðal þeirra viðburða sem tengjast jafnréttismálum á Lýsu, viðburðarröð sem áður hét Fundur fólksins, í Hofi á Akureyri. Þá er einnig fjallað um rannsókn á Áfallasögu kvenna og tilraunverkefni á Norðurlandi í þágu þolenda kynferðisbrota. 

Styrkja dagsektarákvæði við lögbrotum

Í sófaspjalli við starfsfólk Jafnréttisstofu var farið yfir stöðu jafnréttismála í lagalegum skilningi, með breyttu umhverfi fyrirtækja og stofnana þegar kemur að rekstri og mannauðsstjórnun. Þar kom meðal annars fram að nauðsynlegt sé að skýra ákvæði í jafnréttislögum til þess að hægt sé að beita dagsektum í ljósi þess að um íþyngjandi ákvarðanir stjórnvalda sé að ræða. Fram kom í máli starfsfólks Jafnréttisstofu að það væri brýnt að styrkja þetta ákvæði til þess að hægt sé að beita sér af meiri þunga gagnvart þeim sem ekki fylgja jafnréttislögum. 

Nýjum lögum fylgir aukið álag

1.  september tóku gildi tvenn lög, annars vegar um bann við allri mismunun á vinnumarkaði og hins vegar um bann við mismunun á grundvelli kynþáttar og þjóðernisuppruna. Að mati Katrínar Bjargar Ríkharðsdóttur, framkvæmdastjóra Jafnréttisstofu, munu þessi lög að öllum líkindum hafa í för með sér aukið álag á eftirlit stofnunarinnar sem og kærunefnd jafnréttismála. 

sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi