Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Jafnmargir ferðamenn í Airbnb og á hótelum

26.09.2017 - 10:19
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Talið er að jafnmargir ferðamenn gisti í Airbnb-íbúðum á höfuðborgarsvæðinu og gista á hótelum. Heimagisting í Reykjavík velti rúmum sex milljörðum króna í fyrra. Þar af renna 900 milljónir króna til Airbnb-fyrirtækisins en óvíst er hvort fyrirtækið greiði skatta af upphæðinni hér.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í greiningu hagfræðideildar Landsbankans sem kynnt var í Hörpu í morgun. Tölurnar byggja á gögnum greiningarfyrirtækisins Airdna sem safnar þeim af vef Airbnb. Þær benda til þess að Airbnb sé með rúmlega 40 prósenta markaðshlutdeild í hótelgeiranum í Reykjavík. Aukning hefur orðið í útleigu á árinu og hægt verulega á fjölgun gistinátta á hótelum. Það gæti því verið að nálgast jafnt hlutfall milli heimagistingar og hótela. 

Fátt bendir til að skattgreiðslur skili sér

Hagstofa Íslands áætlar að tæplega 670 þúsund gistinætur hafi verið óskráðar í fyrra en greiningardeildin telur að þær séu mun fleiri, jafnvel rúmlega 1,1 milljón í Reykjavík og 1,4 milljónir á öllu höfuðborgarsvæðinu. Fátt bendir til að skattgreiðslur skili sér hingað til lands. Greiningardeildin segir að Airbnb-gisting fái nánast frjálsar hendur og kallar eftir ábyrgð stjórnvalda að skapa sanngjarna samkeppnisstöðu milli heimagistingar og hótela. 

Verði að koma eftirliti í ásættanlegt horf

Það er erfitt að meta umgang heimagistingar utan höfuðborgarsvæðisins en sterkar vísbendingar eru um að á suðvesturhorninu öllu sé staðan svipuð og á höfuðborgarsvæðinu. Í greiningu segir að sterkar vísbendingar séu um að komið sé að tímamótum. Gistimarkaður svæðisins sé þaninn og ekki hefði verið ráðið við þessa miklu fjölgun ferðamanna síðustu ár nema fyrir heimagistinguna. Hún hafi þó líklega átt stóran þátt í þenslu á fasteignamarkaði og leitt til hækkunar húsnæðisverðs. Það sé því nauðsynlegt að fjárfesta frekar í gistirými og koma regluverki og eftirliti með heimagistingu í ásættanlegt horf til að búa í haginn fyrir áframhaldandi fjölgun ferðamanna.