Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Jafn margir reykja og nota munntóbak

08.07.2012 - 18:08
Mynd með færslu
 Mynd:
Verulega hefur dregið úr reykingum Íslendinga en munntóbaksnotkun ungra karlmanna er jafnalgeng og reykingar almennt, í kringum 15 prósent.

Í nýrri könnun Landlæknisembættisins á reykingum og tóbaksneyslu á Íslandi kemur fram að 14,2 prósent þeirra sem orðnir eru 18 ára og eldri reyki daglega. Reykingar séu þó algengari meðal ungs fólks. Í aldurshópnum 18-34 ára reykja á bilinu 19 - 22 af hundraði. Þá reykja fleiri karlar en konur.

Munntóbakið er viðbót

Innan við tvö prósent karla taka daglega í nefið en þrír af hundraði taka í vörina. Munntóbak virðist þó algengara meðal yngri karla en eldri. Í aldurshópnum 18-24 nota 15 prósent þeirra munntóbak daglega. Verulega dregur úr notkun munntóbaks eftir því sem þátttakendur eru eldri og fer hún niður í eitt prósent hjá þeim sem eru eldri en 45 ára. Þá benda niðurstöður könnunarinnar til þess að notkun tóbaks í vör dragi ekki úr reykingum því 26 prósent munntóbaksnotenda reyki líka. Viðar Jensson, verkefnastjóri hjá Landlæknisembættinu, segir niðurstöðurnar ekki koma á óvart því tóbaksneysla í vör hafi aukist meðal ungra karlmanna undanfarin ár. Hann segir að það stemmi ekki sem stundum er haldið fram að karlmenn reyki minna taki þeir tóbak í vör. „Þetta virðist bara vera hrein viðbót,“ segir Viðar. „Það sem er svo slæmt við þetta er að þarna eru ungir karlmenn að verða háðir tóbaksneyslu.“

Út frá niðurstöðum um tóbaksnotkun og þróun á sölu neftóbaks má ætla að á bilinu 70-80 prósent af framleiðslu ÁTVR á íslensku neftóbaki séu notuð sem munntóbak.

Svarhlutfall 48 prósent

Þetta kemur fram í samantekt um niðurstöður könnunarinnar í Talnabrunni, fréttabréfi Landlæknis. Þátttakendur voru um 3.000 manns á öllu landinu, 18 ára og eldri og svarhlutfall var 48 prósent. Karlar voru 3/4 úrtaksins, vegna spurninga um neyslu nef- og munntóbaks, en upplýsingar sem lágu fyrir bentu til þess að hún væri mjög fátíð meðal kvenna. Hér má sjá tóbakskönnun Landlæknisembættisins sem unnin var af Capacent Gallup.