Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Jáeindaskanni í notkun á næstu vikum

30.08.2018 - 18:23
Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson/RÚV
Jáeindaskanninn á Landspítalanum verður tekinn í notkun innan fáeinna vikna. Yfirlæknir segir að skanninn muni breyta heilmiklu í greiningu og meðferð, einkum hjá ákveðnum krabbameinssjúklingum.

 

Íslensk erfðagreining gaf þjóðinni jáeindaskannann fyrir þremur árum, í ágúst 2015. Í tilkynningu frá fyrirtækinu á þeim tíma var sagt að íslenskt heilbrigðiskerfi hafi verið vannært um skeið og illa tækjum búið. Eitt af því sem vanti sé jáeindaskanni sem sé orðinn að lykiltæki við umönnun krabbameinssjúkra. Þáverandi heilbrigðisráðherra sagðist þá vonast til að skanninn yrði kominn í notkun hálfu öðru ári seinna. Það hefur ekki gengið eftir, en verður eftir fáeinar vikur, segir Pétur Hörður Hannesson yfirlæknir röntgendeildar spítalans. 

„Hann mun breyta mjög miklu. Nú hefur hópur sjúklinga þurft að fara til Kaupmannahafnar til rannsókna, en þegar hann verður kominn í fulla notkun geta allir þeir sjúklingar og fleiri til fengið rannsókn hérna heima.“
Nýtist þetta einkum krabbameinssjúklingum?
„Já, langflestir og nær allir sjúklingar sem eru rannsakaðir í þessu tæki eru krabbameinssjúklingar.“

Það á þó ekki við um öll krabbamein. Að sögn Péturs þarf að velja sjúklinga vandlega fyrir þessa meðferð og verður það gert á þverfaglegum samráðsfundum innan spítalans. Hann segir jáeindaskannann sjá starfsemi í líkamanum betur en önnur myndgreiningartæki, yfirleitt sé verið að skoða vefi og hvernig æxli líta út.

„Í þessu tæki sjáum við starfsemina í æxlinu, hversu mikil hún er, svokallaðan metabólisma.“
Og hjálpar það mikið varðandi meðferðina?
„Já, það hjálpar mikið til upp á greininguna og að sjá dreifingu æxlisins og það getur líka hjálpað til við að meta hvernig meðferð gengur, hvort að tekst að drepa niður æxlið og þá minnki þessi starfsemi í æxlinu.“

Gert er ráð fyrir að um sjö sjúklingar fari í skannann á dag þegar allt verður komið í gang. Til að hægt sé að nota skannann þarf að framleiða geislavirk efni sem er sprautað í sjúklinginn. Þau eru hluti af gjöf Íslenskrar erfðagreiningar og verða framleidd í  hluta húsnæðisins sem byggat var utan um skannann. Pétur segir ekki vandamál að losa sig við efnin að notkun lokinni.

„Nei, nei þau hverfa á tiltölulega stuttum tíma, bæði úr sjúklingnum og umhverfinu.“
Og orðin alveg skaðlaus þá?
„Já, algjörlega skaðlaus þá,“ segir Pétur Hörður Hannesson yfirlæknir röntgendeildar Landspítalans.
 

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV