Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Ítreka kröfur á hendur Katar

30.07.2017 - 19:03
Erlent · Katar
epa04078799 An aerial view of high-rise buildings emerging through fog covering the skyline of Doha, as the sun rises over the city, in Doha, Qatar, 15 February 2014.  EPA/YOAN VALAT
Doha í Katar. Mynd: EPA
Ríkin sem beitt hafa Katar þvingunaraðgerðum ætla ekki að láta af þeim nema þarlend stjórnvöld gangi að kröfum þeirra um að berjast gegn hryðjuverkum. Fulltrúar fjögurra Arabaríkja, sem beitt hafa Katar þvingunum að undanförnu, hittust á fundi í Manama, höfuðborg Barein í dag.

Fulltrúarnir, sem eru frá Saudi-Arabíu, Sameinuðu arabísku furstadæmunum, Barein og Egyptalandi ítrekuðu kröfur sínar um að stjórnvöld í Katar láti af stuðningi við hryðjuverkahópa. Þarlend stjórnvöld hafa ætíð neitað ásökunum um slíkt.

„Löndin fjögur eru tilbúin til viðræðna við Katar með þeim skilyrðum að stjórnvöld lýsi yfir einskærum vilja til að hætta að fjármagna hryðjuverka- og öfgasamtök,“ sagði utanríkisráðherra Barein, Sheikh Khalid bin Ahmed al-Khalifa, á blaðamannafundi í dag. BBC greinir frá.

Nágrannaríkin slitu stjórnmálasamstarfi við Katar í byrjun júní síðastliðnum. Meðal krafna sem settar voru fram var að dregið yrði úr samskiptum við Íran, fjölmiðlinum Al Jazeera lokað sem og tyrkneskri herstöð.