Íþyngjandi að svipta rekstrarleyfi

25.04.2019 - 19:00
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Rannsókn lögreglu á Procar málinu er umfangsmikil og óvíst hvenær henni lýkur. Enginn hefur verið handtekinn. Dómsmálaráðherra segir það mjög íþyngjandi að svipta fyrirtæki starfsleyfi .

Rúmir tveir mánuðir eru síðan fréttaskýringaþátturinn Kveikur upplýsti að starfsmenn bílaleigunnar Procar hefðu lækkað kílómetrastöðu í hundrað bílum fyrirtækisins hið minnsta. Framkvæmdastjóri FÍB gagnrýnir stjórnvöld fyrir skort á viðbrögðum.

„Við sjáum það að Procar er enn í rekstri, fyrirtækið er enn að leigja út bíla eins og ekkert hafi gerst,“ sagði Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB í fréttum RÚV 19. apríl síðastliðinn.

En hverju svarar ferðamálaráðherra?

„Hér koma við sögu lög sem heyra undir ferðamálaráðuneytið og lög sem heyra undir samgönguráðuneytið og er þá hlutverk Samgöngustofu. Þarna er einfaldlega verið að skoða hvaða heimildir Samgöngustofa annars vegar hefur og aðrir eftir atvikum til þess að bregðast við. Vegna þess að öll íþyngjandi úrræði þurfa að hafa skýra lagastoð. En það er alveg rétt að þetta er auðvitað lögbrot,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamálaráðherra.

Þórdís bendir á að tvær bílaleigur af hundrað og tuttugu hafi orðið uppvísar að brotum. Finna þurfi úrræði sem snerti þær tvær beint.

„Í stað þess að koma með allsherjareftirlit á 120 bílaleigur sem eykur kostnað þeirrar opinberu stofnunar sem þarf þá einhvern veginn að fjármagna og það skilar sér þá aftur út í verðlagið,“ segir Þórdís.

Telur þú að það eigi að svipta Procar starfsleyfi?

„Það er nú voðalega erfið spurning kannski fyrir mig að svara. Við erum með alls konar atriði í löggjöfinni sem kalla á dagsektir. Þetta er ekki þar inni. Inni í lögunum er talað um góða viðskiptahætti. Þetta eru að sjálfsögðu ekki góðir viðskiptahættir,“ segir Þórdís.

Málið snúi bæði að öryggi í ferðaþjónustu og neytendamálum þegar fólk kaupi bíla með rangri kílómetratölu. 

Lögregla höfuðborgarsvæðisins hefur Procar-málið til rannsóknar. Rannsóknin er langt komin en Margeir Sveinsson aðstoðaryfirlögregluþjónn segist ekki geta sagt til um hvenær rannsókn ljúki. Málið sé afar umfangsmikið og enn eigi eftir að yfirheyra nokkur vitni. Enginn hefur verið handtekinn.

Aths 26. apríl: Fyrirsögn og orðalagi í inngangi var breytt.

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi