Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Ísskúlptúr af Björk í Vilníus

Mynd: EPA / EFE

Ísskúlptúr af Björk í Vilníus

16.06.2017 - 12:29

Höfundar

Þann 11. febrúar árið 1990 voru Íslendingar fyrstir þjóða til að viðurkenna sjálfstæði Litháens. Af þessu tilefni blása íbúar Vilníus til veislu til heiðurs Íslendingum einu sinni á ári, á svokölluðum Íslandsdegi, og hefur siðurinn viðhaldist í nokkur ár.

Undirtitill hátíðarinnar er Takk Ísland, og er Íslendingagata þar í borg skreytt og tileinkuð landi og þjóð með ýmiss konar landkynningu, tónleikum og hátíðarhöldum. Valdimar Guðmundsson tónlistarmaður er staddur í Vilníus og er hann einn þeirra sem stíga á stokk í kvöld. „Á Íslandsstræti er Ísland í hávegum haft, skreytingar á götunni; rautt, hvítt og blátt og menn að gera sig klára. Á götunni er mikil stemmning. Sól og næs fílingur.“

Valdimar Guðmundsson segir frá því í Kastljósi að hann eigi í vandræðum með ofþyngd og kæfisvefn sem henni fylgir.
 Mynd: RÚV - RÚV/Kastljós
Valdimar Guðmundsson tónlistarmaður

Ísskúlptur í ísskápinn

Hluti af skemmtuninni verður sýning á ísskúlptúr af tónlistarkonunni Björk Guðmundsdóttur. „Ég veit ekki alveg hver pælingin er, við erum náttúrulega Ís-land og hún er ís-lensk, þannig að það er kannski svona tengingin sem þau eru að gera.“ Aðspurður um hvort skúlptúrinn muni þola veðurblíðuna segir hann: „Ég veit ekki alveg hvar þau ætla að geyma þennan skúlptúr, kannski fer hann beint inn í ísskáp bara.“

Mynd með færslu
 Mynd: Phillip Capper - https://en.wikipedia.org/wiki/Vi
Gamli bærinn í Vilníus

Heimsókn á sögusafn

Valdimar segir að hljómsveit hans sé ein úr hópi íslenskra sveita sem koma fram í dag, en að auki verði litháensk bönd á svæðinu. Hann segir hópinn hafa fengið mjög góðar móttökur hjá aðstandendum hátíðarinnar: „Við fórum á sögusafn þar sem við fengum svona sýndarveruleikagleraugu þar sem maður sveif um Vilníus, ýmsa staði. Maður varð bara hálf-lofthræddur að líta í kringum sig, hátt uppi í loftinu þarna. Svo fórum við inn í sal og horfðum á [innsk. blm. myndband um] sögu Litháen og hvernig þeir hafa öðlast og tapað sjálfstæði gagnvart Sovétríkjunum, sem var áhugaverð saga.“

Valdimar Guðmundsson var í símaviðtali við Morgunútvarp Rásar 2 um Íslandsdaginn í Vilníus sem haldinn er 16. júní.

Tengdar fréttir

Tónlist

Rauða nefið: Valdimar syngur Michael Jackson

Valdimar hjá Gísla Marteini