Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Ísraelum heitt í hamsi í viðtali við Hatara

Ísraelum heitt í hamsi í viðtali við Hatara

03.03.2019 - 19:51

Höfundar

Hatari býst við blönduðum móttökum í Ísrael, bæði öfgakenndum og léttum. Þeir sögðu í viðtali við ísraelska sjónvarpsstöð dag að það væri ekkert óeðlilegt við þá hugmynd að sniðganga keppni sem haldin sé þar í landi.

Óhætt er að segja að sigur Hatara í Söngvakeppninni í gærkvöld hafi vakið athygli. Þegar niðurstaðan lá fyrir sagði Matthías Tryggvi Haraldsson að hljómsveitin færi með mikilvæg málefni til Ísraels.

„Þau eru í grunninn að keppnin er í eðli sínu pólitísk og það er mikilvægt að áhorfendur séu meðvitaðir um það,“ segir Matthías Tryggvi Haraldsson liðsmaður Hatara.

Gestgjafarnir eru greinilega áhugasamir um Hatara því tveir þeirra voru í viðtali við ísraelska sjónvarpsstöð strax í dag.

„Þeim var mjög heitt í hamsi, þau vildu vita hvort við værum sammála því að það ætti að sniðganga Eurovision 2019,“ segir Klemens Hannigan liðsmaður Hatara.
Og hverju svöruðu þið því?
„Við reyndum eftir bestu getu að taka okkar persónulegu skoðanir út fyrir sviga, en bentum á það sem við höfum áður sagt að við viljum halda gagnrýnu samtali um keppnina á lofti með öllum okkar meðölum sem listamenn og að það sé ekkert óeðlilegt við þá hugmynd að sniðganga keppni sem haldin er í Ísrael,“ segir Matthías. 
Hvaða móttökur haldið þið að þið fáið þegar þið farið þangað?
„Blandaðar, ýmist öfgakenndar eða léttar. Við höfum fengið fjölbreyttar móttökur nú þegar og við fögnum fjölbreyttri umræðu,“ segir Matthías.

Og Klemens bætir við:
„Það er mikilvægt að það komi fram að þessi keppni er pólitísk í eðli sínu og allir þátttakendur sem stiga á svið í Tel Aviv 2019 munu vera að flytja pólitískan boðskap að einhverju leyti.“

 

Tengdar fréttir

Tónlist

Gjörningur og háðsádeila sem eigi erindi

Tónlist

Hatrið sigraði í Söngvakeppninni

Tónlist

Hatari og Friðrik Ómar í úrslitaeinvígið