Íslenskur leikur leggur Candy Crush

Mynd með færslu
 Mynd:

Íslenskur leikur leggur Candy Crush

08.11.2013 - 18:25
Íslenski spurningaleikurinn QuizUp er í fimmta sæti á metsölulista App Store og er því orðinn vinsælli en hinn alræmdi tölvuleikur Candy Crush. QuizUp er í níunda sæti yfir ókeypis smáforrit fyrir iPhone og tekur sér þar stöðu við hlið Facebook og Snapchat og You Tube.

Leikurinn kom út í Bandaríkjunum í dag en hann er gerður sérstaklega fyrir vörur Apple-fyrirtækisins - síma og spjaldtölvur.

Að því er fram kemur í tilkynningu frá Plain Vanilla hefur leikurinn þegar fengið mikla athygli en hann þykir einn sá stærsti sinnar tegundar. Notendur geta reynt sig við spurningar um bókmenntir, landafræði, kvikmyndir og tónlist og er verið að vinna að útgáfu leiksins fyrir Android-síma.

Þorsteinn B. Friðriksson, stofnandi Plain Vanilla, segir í samtali við fréttastofu að starfsmenn fyrirtækisins svífi um á bleiku skýi. „Það bætast nýir notendur við á hverri sekúndu frá öllum heimshornum og það er í raun ótrúlegt, eftir að hafa unnið að þessu verkefni í svona langan tíma, að sjá þetta verða loks að veruleika.“

Leikurinn hefur fengið mikla athygli á samskiptamiðlinum twitter þar sem fólk stærir sig af góðum árangri í hinum og þessum spurningaflokknum. Appstore sá sig einnig knúið til að lýsa því yfir á síðu sinni að þeir væru orðnir algjörlega háðir leiknum.

[email protected]