Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Íslenskur kosher-ostur bíður blessunar

25.06.2018 - 17:06
Mynd: public domain pictures / public domain pictures
Mjólkursamsalan stefnir að því að fá kosher-vottun á smjör, skyr og ost. Neytendur munu að sögn Egils Thoroddsen, gæðastjóra MS á Akureyri, ekki finna neinn mun á vörunum eftir vottun en hún eykur útflutningstækifæri samsölunnar. Ekki liggur fyrir hvenær vottunin verður komin í hús. Fyrst þarf að klára rannsóknar- og pappírsvinnu og blessa tækjabúnað.

Löngu áður en stjórnvöld fóru að setja lög og reglur um matvælaframleiðslu höfðu slíkar reglur verið settar í Íslam og Gyðingdómi, þessar reglur nefnast halal í Íslam og kosher hjá Gyðingum og matvælaframleiðendur víða um heim leggja sig í auknum mæli fram um að uppfylla staðla sem skilgreindir hafa verið út frá þeim.

Matur sem er halal má til dæmis ekki innihalda; svínakjöt, alkóhól eða önnur vímuefni, kjötafurðir af dýrum sem ekki hefur verið slátrað með halal-slátrun eða kjöt af dýrum sem leggja sér önnur dýr til munns eða goggs. Þeir sem neyta einungis kosher-fæðu mega borða afurðir nautgripa, sauðfjár og geitfjár en ekki svínakjöt, hrossakjöt, kanínukjöt eða kjöt af kameldýrum. Heimilt er að neyta fuglakjöts, svo sem kjúklings og kalkúns en einungis má neyta fisks sem er með uggum sem auðvelt er að fjarlægja. Slátrun þarf að vera kosher. Öll innihaldsefni í vöru þurfa að vera kosher-vottuð og það þarf að fjarlægja allt blóð úr afurðunum. 

„Þetta er svona keðjuverkandi, við þurfum að vita hvort allt sem er í okkar hráefni sé kosher-vottað. Ef svo er veit úttektaraðilinn að öll innihaldsefnin séu í lagi,“ segir Egill Thoroddsen, gæðastjóri MS á Akureyri.

Fullvissaður um að engin svínamjólk væri í vörunum

Mynd með færslu
 Mynd: wikimedia commons
Framleiðsla á osti.

Rabbíni frá Bretlandi skoðaði í síðustu vikur aðstæður í þremur afurðastöðvum hér á landi; stöð KS í Skagafirði, MS á Akureyri og Selfossi. Hann starfar fyrir Kosher-vottunaraðila, ferðast víða um heim og tekur út fyrirtæki sem sækjast eftir slíkri vottun. „Kröfurnar eru alltaf að aukast um ákveðinn hreinleika þar sem ekki er verið að blanda saman dýraafurðum og mjólk. Hann spurði til dæmis hvort við værum að blanda saman mismunandi mjólk, mjólk úr svínum eða kameldýrum og ég sagði honum að við værum ekki að mjólka svín á Íslandi og að það væru engin kameldýr hérna.“ 

En fleira þarf að skoða og starfsmenn MS eru nú að kanna hvort einhverju þurfi að breyta til þess að uppfylla kröfur vottunarstofunnar. „Það má ekki blanda saman við ostahleypi sem hefur verið unnin úr dýraafurðum, til dæmis svínum. Við erum reyndar ekki með þannig hleypi, við erum með kosher-vottaðan hleypi þannig að það verður ekki vandamál. Svo eru önnur innihaldsefni. Þegar maður er að framleiða ost þarf maður að nota kúltúr sem þarf að vera vottaður og við erum að skoða það hjá okkur núna. Við erum með mismunandi kúltúra sem við blöndum saman og þeir þurfa allir að standast þessa vottun. Ég veit að hluti af þeim eru vottaðir en við erum að afla okkur upplýsinga frá birgjum okkar.“ 

Tækin blessuð og þvegin með sérstökum hætti

Hann segir að líklega komi rabbíninn aftur í haust til að fara yfir stöðuna, það sé óljóst hvenær vottunin verði komin í höfn. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Skyrgerð.

Vottunin snýr fyrst og fremst að tæknilegum atriðum en Egill segir að líklega fari líka fram lítil trúarathöfn áður en kosher-framleiðsla hefst. „Hann talaði um að það þyrfti að gera einhverja heilaga blessun á ákveðnum tækjum hjá okkur. Það yrði þá gert í eitt skipti og þá uppfylla tækin þennan staðal. Það er þá þessi hreinleiki sem er alltaf verið að tala um. Hann segir að það þurfi þá að þvo tækin á sérstakan hátt.“ Egill segir lítið mál að verða við þessu. „Við tökum bara tillit til þessara trúarbragða og gerum það sem þarf að gera.“   

Munar um hvert kíló sem er selt út

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Mjólkurafurðir: Til stendur að fá kosher-vottun á vörur sem eru fluttar út þegar það safnast upp birgðir.

Það eru kaupendur í Evrópu sem fara fram á að MS sé með þessa vottun. „Þeir eru að senda vörurnar til ákveðinna aðila sem krefjast þessarar vottunar.“ Þetta eflir markaðsstöðu fyrirtækisins og Egill segir að það muni um hvert kíló af osti og smjöri sem sé sent út þegar það safnast upp birgðir í landinu. „Þegar það verður aukin birgðasöfnun í landinu verðum við að grípa til útflutnings til að fyrirbyggja að birgðasöfnunin verði of mikil. Einhvers staðar þurfum við að koma vörum í verð og ef við höfum greiðari aðgang að mörkuðum með því að hafa þessa vottun er tilvalið að nýta sér það.“ 

Segir gæðin hugsanlega aukast

Það stendur einungis til að fá kosher-vottun á skyr, osta og smjör. Egill segir hugsanlegt að innihaldsefnin uppfylli nú þegar kosher-staðalinn, það þurfi bara að ganga úr skugga um það. Ferlin breytist ekkert og framleiðslan uppfylli áfram kröfur Matvælastofnunar. „Við höldum áfram að framleiða hágæðavörur, þetta eru bara nýjar markaðir og við þurfum að uppfylla ákveðna pappírsvinnu og gegnsæi í framleiðsluháttum sem er gott fyrir alla. Við fögnum því ef við fáum þessa vottun og í raun munu gæðin bara aukast ef eitthvað er, vonandi bara gengur þetta.“ 

Útflutningsvörur merktar en óljóst með hinar

Hann segir að útflutningsvörurnar verði merktar með kosher-stimpli. „Það hefur ekki verið rætt hjá markaðsteyminu hvort við verðum með þennan stimpil á okkar innlendu vörum. Það kannski gerist í framtíðinni. Ég tel að innlend og erlend framleiðsla verði bara nákvæmlega eins, þetta hafi ekki neinar breytingar í för með sér. Það þarf bara að hafa pappírana á hreinu.“ 

Halal-vottun til umræðu en flóknari

Egill segir að það komi til greina að sækja um halal-vottun, en tekin hafi verið ákvörðun um að byrja á kosher-vottuninni. Það sé margt líkt með þessum vottunum en halal-vottunin sé líklega aðeins strangari. „Það er til dæmis talað um alkóhól og fleira við sótthreinsun. Að það þurfi að finna aðrar lausnir í því sambandi.“ 

Reglulegar eftirlitsheimsóknir

Þegar MS verður komið með kosher-vottun á ost, skyr og smjör kemur eftirlitsaðilinn reglulega í heimsóknir og fylgist með því hvort staðallinn sé virtur. MS er ekki óvant svona heimsóknum enda hafa önnur vottunarfyrirtæki sótt fyrirtækið heim og gert úttektir, svo sem á matvælaöryggi. „Þá er krafan að þú ert með óháðan úttektaraðila sem gerir úttektina alltaf eins, óháð landi og fyrirtæki. Þá getur kaupandinn treyst því að hann sé með alveg pottþétta vöru.“ 

Hann segir að þrátt fyrir að Matvælastofnun vinni eftir Evrópulöggjöf þá séu úttektirnar ekki samræmdar milli landa en það samræmi sé tryggt þegar komi að alþjóðlegum stöðlum. 

Auknar kröfur um vottanir

Færst hefur í aukana að gerðar séu kröfur um að vörur státi af alls kyns vottunum. Það má nefna lífrænar vottanir, upprunavottanir, sjálfbærnivottanir og siðgæðisvottanir á borð við Fair trade. Til að fá vottun þarf fyrirtæki að senda umsókn til vottunarstofu, þjálfaður úttektarmaður á hennar vegum kemur og tekur framleiðsluna út og ef vottun fæst fær handhafi heimild til að nota vottunarmerkið á umbúðir og við markaðssetningu. 

Töluverður kostnaður

Íslandsstofa kynnti í apríl greiningu á þeim tækifærum og áskorunum sem vottanir gætu haft í för með sér fyrir íslensk fyrirtæki. 
Þar er því meðal annars velt upp hvort tækifæri gætu falist í því að auka meðvitað notkun fullyrðinga á borð við glútenfrítt, vegan, kosher og halal á útflutningsvörum. „Þegar kemur að öllum vottunum og úttektum er töluvert mikið sem þarf að gera. Það þarf að fá hingað til landsins úttektaraðila og það kostar peninga. Það þarf að skoða það í ljósi þess hversu mikill ávinningur er af þessu og það á við um allar vottanir, trúarvottanir og aðrar,“ segir Guðný Káradóttir, forstöðumaður á sviði matvæla, sjávarútvegs og landbúnaðar hjá Íslandsstofu. „Sjávarútvegurinn hefur tekið sig saman um að votta sjálfbærar veiðar á fiskistofnum og það er borgað með samstilltu átaki, það er reyndar valfrjálst en ef einstakt fyrirtæki ætlar að óska eftir rekjanleikavottun er það ekkert svo dýrt, hleypur á nokkur hundruð evrum en þessi vottun á fiskveiðum kostar töluvert fjármagn. Þetta eru í kringum 50 til 70 milljónir á ári sem þarf að leggja í að viðhalda þessu kerfi og taka nýja stofna inn.“ Kosher og halal-vottanir séu ódýrari, „en við erum ekki með nákvæma verðskrá yfir það“.

Stór hluti matvæla í Bandaríkjunum kosher-vottaður

Mynd með færslu
 Mynd: Íslandsstofa
Kosher-vottanir. Það eru ýmis fyrirtæki sem taka að sér að votta og merkin endurspegla það.

Guðný segir að þetta séu stórir markaðir og að lítið hafi verið hugað að þeim hér. „Við fáum oft fyrirspurnir og erum oft með viðburði erlendis þar sem við erum að bjóða kaupendum að hitta seljendur og framleiðendur frá Íslandi og þar eru menn að mæta og spyrja sérstaklega um afurðir sem þeir geta keypt fyrir þessa trúarhópa.“ 

Í greiningu Íslandsstofu kom fram að undanfarið hefði færst mjög í aukana að vörur væru merktar halal eða kosher, þannig hafi 40% matvæla á Bandaríkjamarkaði verið skráð Kosher árið 2014. Í ríkjum sem kenna sig við Íslam eða gyðingdóm sé þetta krafa en eftirspurn aukist líka stöðugt í vestrænum ríkjum og áætlað að markaður fyrir bæði halal og kosher stækki nokkuð á næstu árum. Þá velji fjöldi neytenda þessar vörur af öðrum ástæðum en trúarlegum.

Ekkert yfirlit yfir trúarvottanir

Matvælastofnun hefur ekki upplýsingar um það hvaða fyrirtæki hafa fengið kosher- eða halal- vottun á vörur sínar og er ekki skylt að halda slíka skráningu þar sem slíkar vottanir eru ekki hluti af lögbundnum kröfum. Katrín Guðjónsdóttir, fagsviðsstjóri Neytendaverndar hjá Mast, segist ekki hafa upplýsingar um hvort og hversu mikil áhrif það að uppfylla halal- eða kosher vottun hafi á gæði en segir að ábyggilega hafi það einhver áhrif á framleiðsluferli. Það sem máli skipti sé að löggjöf um matvæli og matvælaöryggi sé uppfyllt. Oftast gangi kröfur vegna vottana lengra en almenn matvælalöggjöf en snúi ekki endilega að matvælaöryggi. Ef upp kæmu atriði vegna slíkra vottana sem stönguðust á við löggjöfina væri það ekki ásættanlegt. 

Áttaði sig á því að trúarbrögð lytu ekki rökum

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Lambakjöt frá haustinu 2015, hugsanlega halal-vottað.

Nokkur fyrirtæki hafa tekið upp halal-vottun en vörur þeirra eru ekki endilega merktar halal á innlendum markaði. 

Hjá SS var gerð tilraun með halal-slátrun á sauðfé haustið 2010. Sendinefnd frá Kúrdistan hafði þá komið til landsins og sýnt mikinn áhuga á að kaupa lambakjöt en sett það sem skilyrði að kjötið yrði halal. SS sá ákveðið tækifæri í þessu en fyrirtækið snarhætti við að beita þessari aðferð nokkrum dögum eftir að tilraunin hófst þar sem fjöldi fólks brást ókvæða við. Steinþór Skúlason, forstjóri SS, segist hafa reynt að rökræða við nokkra sem kvörtuðu en gert sér grein fyrir því að það þýddi lítið þar sem trúarbrögð lúti ekki rökum heldur tilfinningum. Þetta hafi verið tapað stríð og ljóst að þetta hefði haft í för með sér meiri fjárhagslegan skaða en ávinning fyrir fyrirtækið. 

Aðferðin sem beitt er við halal-slátrun sauðfjár hér er þó sú sama og tíðkast almennt, lambið fær raflost sem sviptir það meðvitund er svo skorið á háls og drepst vegna blóðmissis. Eini munurinn er sá að sá sem sker lambið er múslimi og hann fer með bænir í huganum á meðan. Sums staðar er halal-slátrun framkvæmd þannig að lambið er einungis skorið, það er ekki svipt meðvitund áður. Steinþór segir að þetta tíðkist til dæmis í Bretlandi og geti ekki talist mannúðlegt. 

Betra verð og auðveldara að selja

Sláturhús KS á Sauðárkróki er með halal-vottun, það á líka við um SAH-afurðir á Blönduósi og sláturhús KVH á Hvammstanga. Davíð Gestsson, framkvæmdastjóri sláturhúss KVH, segir að þetta hafi mikla þýðingu, sala á erlenda markaði gangi mun betur og það fáist hærra verð fyrir afurðina. Mest er selt til Bretlands. Gísli Garðarsson, sláturhússtjóri á Blönduósi, segir að síðastliðið sumar hafi um 200 tonn af lambakjöti verið flutt til Noregs, þar hafi kaupandinn gert kröfu um að kjötið væri halal. Lambakjöt sem fer á innlendan markað er ekki merkt sérstaklega en heilskrokkar eru merktir. Gísli segir að ekki hafi komið upp nein vandamál, engar kvartanir eða mótmæli. Loks má nefna að Lýsi hefur verið með halal-vottun í nokkur ár.

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV

Tengdar fréttir