Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Íslenskt skáld er sá sem skáldar á Íslandi

Mynd: Peter Schneider / EPA

Íslenskt skáld er sá sem skáldar á Íslandi

01.12.2018 - 16:05

Höfundar

Hvenær verða til innflytjendabókmenntir á Íslandi? Þessari spurningu er fljótsvarað að mati skáldsins Sjón: Innflytjendabókmenntir eiga sér langa sögu á Íslandi.

Á síðustu öld hófu höfundar frá ýmsum löndum sem sest höfðu að hér á landi að skrifa skáldskap og sumt var meira að segja gefið út. Þessi höfundar hafa hins vegar aldrei öðlast sess í íslensku bókmenntalífi. Það er nauðsynlegt að vinna þessum höfundum brautargengi til að nýta tjáningarfrelsið líka eftir að þeir hafa sest að hér.  

Hugtakið þjóðbókmenntir er ekki mikið á lofti á nýrri öld. Á síðustu áratugum hefur hugtakið innflytjendabókmenntir hins vegar fest sig í sessi. Um þessar mundir er haldið upp á að hundrað ár eru liðin frá því Ísland varð fullvalda ríki. Um leið marka tímamótin upphaf næstu hundrað ára og gefur tilefni til að spyrja hvort raddir innflytjenda eigi eftir að marka spor í íslensku bókmenntalífi.

Skáldið Sjón segist fyrst hafa farið að hugsa um höfunda sem á Íslandi skrifuðu á öðru tungumáli en íslensku þegar hann hóf að starfa með PEN (Alþjóðasamtök rithöfunda) sem meðal annars láta sig tjáningafrelsi miklu varða. 

Sjón heldur því fram að líta megi á viðtalsbækur við útlendinga sem hér hafa sest að sem sérstaka grein innflytjendabókmennta á Íslandi. Forvitnileg lesning fyrir heimamenn en sjónarhorn hins utanaðkomandi er mikilvægur þáttur innflytjendabókmennta sem vonandi tekur nú að vaxa fiskur um hrygg. 

„Allir eiga að hafa aðgang að vettvangi tjáningarinnar og skiptir þá engu máli hvort þeir tali eða skrifi tungumáli þess lands sem þeir eru í. Það er hlutverk þeirra sem eru fyrir að opna nýju fólki leiðina að þessum vettvangi,“ segir Sjón. Og hann brýnir ýmsar stofnanir eins og Ríkisútvarpið og Miðstöð íslenskra bókmennta til að gleyma ekki þessum hluta íslenskra höfunda.

Sjón segir sögu innflytjendabókmennta á Íslandi í reynd orðna nokkuð langa en því miður höfðum við ekki borðið gæfu til að bjóða þessum höfundunum með okkur í hópinn. Hann vonar til að mynda að ljóðabókin Franskar Íslandsvísur eftir Gerard Lemarquis í þýðingu Þorgeirs Þorgeirssonar frá árinu 1981 gleymist ekki þegar fjallað er um bókmenntir á síðustu áratugum 20. aldar.  En Gerard Lemarquis hefur verið búsettur hér á landi frá því hann var ungur maður fyrir mörgum áratugum. Sjón nefnir fleiri höfunda sem skrifuðu og sendu jafnvel líka frá sér skáldskap á bókum án þess að fá nokkra athygli. Má þar nefna Albert Daudistel, Melittu Urbancic, Úlf Friðriksson og Nadestu Sigurdsson 

Á síðustu árum hefur einn og einn höfundur komið sögum sínum og ljóðum í útgáfu og má þar fyrstan nefna Elías Knörr sem hefur tekist að verða hluti af íslensku bókmenntalífi. Það sama verður ekki sagt um Marjöttu Ísberg eða Maríu Karlsdóttur sem hefur þó sent frá sér tvö smásagnasögn, Ljóðelskur maður borinn til grafar (2002) og Óræðir draumar (2003). 

Á síðustu árum hefur hefur samvinna Borgarbókasafnsins og Bókmenntaborgarinnar Reykjavíkur verið mikilvægur bakhjarl við skrifandi Íslendinga af erlendu bergi brotna með námskeiðum og viðburðum tengdum skáldskap auk þess sem ÓS pressan hefur verið þessum höfundum mikilvægur vettvangur. Meðal höfunda ÓS pressunnar er Ewa Marcinek sem m.a. annars hefur birt smásöguna „Ísland pólerað“ í Tímariti Máls og menningar í hausthefti ársins 2016.

Tengdar fréttir

Klassísk tónlist

Sjón með bestu nýju óperu ársins í Evrópu

Bókmenntir

Sjón skilar handriti í framtíðarbókasafn

Bókmenntir

Bókmenntir í ljósi hreyfanleika

Bókmenntir

Mánasteinn meðal bóka ársins í Financial Times