Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Íslenskt grín í Kína

Mynd: Helgi Steinar Gunnlaugsson / Helgi Steinar Gunnlaugsson

Íslenskt grín í Kína

31.10.2018 - 14:14

Höfundar

Virkar íslenskt grín í Kína? Húmor þýðist misvel á önnur tungumál, hvað þá á milli ólíkra menningarheima. Fjórir íslenskir grínarar héldu til Kína í síðustu viku og voru með uppistand fyrir heimafólk. Hvort ætli þau hafi uppskorið hlátrasköll eða þögn? Þrír þeirra, Hugleikur Dagsson, Andri Ívarsson og Helgi Steinar Gunnlaugsson, sögðu ferðasöguna í Mannlega þættinum í dag.

„Við vitum öll að það er pínu vandræðalegt að Snjólaug er ekki hérna,“ byrjaði Hugleikur Dagsson á að segja. En Snjólaug var bundin í vinnu og komst ekki með í viðtalið. „Ég var beðinn um að tala fyrir hennar hönd,“ var Andri Ívarsson fljótur að benda á í gríni. „Hún er sem sagt sú eina okkar sem á sér líf,“ segir Hugleikur sposkur og Helgi Steinar bætti við: „Þetta er í fyrsta skipti sem við vöknum fyrir hádegi í um það bil fjögur ár.“

Bjó í Kína í fimm ár

„Ég byrjaði að stunda uppistand þegar ég var í Kína, í Peking,“ segir Helgi Steinar. Hann heldur enn sambandi við þá sem hann kynntist í gegnum það og eftir að hann flutti aftur heim fékk hann þá hugmynd að það væri gaman að fara aftur til Kína. Hann spurði þau Snjólaugu, Andra og Hugleik hvort þau væru til í að koma með honum til Kína og vera með uppistand og þau hafi samþykkt það strax. Hann tekur þó fram að þau hafi líklegast haldið að hann væri að grínast og Hugleikur tekur undir það. Hann hafi ekki búist við því að þetta yrði að veruleika. „Svo var maður bara allt í einu í Kína.“

Uppistandi var allt á ensku en Helgi Steinar talar þó mandarín-kínversku eftir að hafa búið í Kína. „Ég hef tekið uppistand á kínversku, en geri það yfirleitt á ensku.“ Þáttastjórnendur notuðu þó tækifærið til að fá Helga til að segja línu úr brandara á mandarín sem hann gerði, og hægt er að hlusta á í viðtalinu hér fyrir ofan, og uppskar hlátur allra í hljóðverinu.

Besta matarferðin hingað til

Hugleikur talaði um hversu mikilvægt var að hafa Helga með í för til þess að túlka og hjálpa hópnum við hinar ýmsu aðstæður, því innfæddir tali oft ekki ensku. Til dæmis við að panta mat á veitingastöðum, Helgi hafi rúllað því upp og borinn var fyrir þau hver dýrindisrétturinn á fætur öðrum. „Ég ferðast til að borða,“ segir Hugleikur, „og þetta var besta matarferð mín hingað til.“

En svo er það stóra spurningin, hvernig gekk þeim að fá heimafólk til að hlæja? „Bara mjög vel!“ svarar Helgi Steinn. Hópurinn skemmti í þremur borgum, Shanghai, Wuhan og Peking, sem eru mjög ólíkar borgir. „Shanghai er vestræna borgin, þetta er bara eins og að koma til New York,“ segir Helgi. Wuhan er í miðju landinu. „Það er svona Blönduós Kína,“ skýtur Hugleikur inn í. „Svo er það Peking,“ heldur Helgi Steinn áfram, „hún er soldið svona norðurkóreska borgin í Kína. Þú finnur fyrir lögregluríkinu í Peking,“ útskýrir hann. Þeir sögðu það hafa gengið mjög vel á öllum þessum stöðum að fá fólkið til að hlæja, enda tala flestir ensku sem mæta á svona uppistand hjá erlendum grínurum.

Þeir Andri, Helgi Steinar og Hugleikur voru gestir í Mannlega þættinum á Rás 1 í dag og viðtalið má hlusta á í heild í spilaranum hér fyrir ofan.