Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Íslenskir listamenn sigursælir í Berlín

Atli Örvarsson, Nanna Kristín Magnúsdóttir og Jóhann Jóhannsson. - Mynd: María Guðrún Gunnarsdóttir / Utanríkisráðuneytið

Íslenskir listamenn sigursælir í Berlín

15.02.2016 - 21:44

Höfundar

Íslensk tónskáld voru sigursæl á Hörpu-verðlaununum sem samtök norrænna kvikmyndatónskálda veittu í Berlín í kvöld. Atli Örvarsson var verðlaunaður fyrir tónlistina í myndinni Hrútum og Jóhann Jóhannsson fékk verðlaun fyrir besta höfundarverkið.

Hörpu verðlaunaafhendingin fór fram við hátíðlega athöfn í norrænu sendiráðunum í Berlín og samtímis fór fram leikara verðlaunaafhendingin Northern Lights. Verðlaunaafhendingin var haldin þar sem alþjóðlega kvikmyndahátíðin í Berlín stendur nú sem hæst.

Atli Örvarsson vann fyrir bestu kvikmyndatónlist, fyrir frumsamda tónlist sína í verðlaunakvikmynd Gríms Hákonarsonar, Hrútar. Þá vann Jóhann Jóhannsson sérstök heiðursverðlaun fyrir framlag sitt til kvikmyndatónlistar.

Á sviði leiklistar var Ísland einnig í sérflokki þar sem Nanna Kristín Magnúsdóttir var valin sem besta leikonan af alþjóðahópi þeirra sem sjá um leikaraval á alþjóðavísu („casting directors“). Dómnefnd sagði Nönnu Kristínu ekki aðeins frábæra leikkonu heldur einnig hæfileikaríkan handritshöfund og framleiðanda.

Sérstök dómnefndarverðlaun hlaut sænska leikkonan Malin Levanon, sem nýverið hlaut Gullbjölluna, sænsku kvikmyndaverðlaunin, fyrir bestan leik í aðalhlutverki í Tjuvheder.