Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Íslenskir grunnskólanemar aldrei staðið verr

Mynd: Anton Brink / Ruv.is
Íslenskir grunnskólanemar hafa aldrei staðið verr. Námsárangur þeirra er áberandi verri en á hinum Norðurlöndunum og undir meðaltali OECD-ríkja. Afburðanemum fækkar en þeim fjölgar sem ekki ná lágmarksviðmiðum. Lesskilningur barna af erlendum uppruna hefur hrapað frá aldamótum. 

Þetta sýna niðurstöður PISA-könnunarinnar fyrir árið 2015 sem kynntar voru í dag, þeirrar sjöttu sem Ísland tekur þátt í. Hún nær til hálfrar milljónar 15 ára nemenda frá 70 ríkjum. Menntamálaráðherra segir niðurstöðurnar mikið áhyggjuefni en að ekki tjói að benda á blóraböggla, sjálfur beri hann ekki ábyrgð, enda ekki nema tvö ár af hans ráðherratíð undir. 

Grunnskólanemar á Austurlandi „misst tvö ár úr skóla“

Rúmur fimmtungur 15 ára grunnskólanema, 22%, á erfitt með að lesa sér til gagns.  Árið 2000 átti þetta við um 15% nemenda. Lesskilningur minnkaði frá 2000 til 2006 en hefur síðan ekki lækkað marktækt á landsvísu. Samfellt hefur dregið úr lesskilningi á Norðurlandi, Austurlandi og á höfuðborgarsvæðinu. Mest hefur dregið úr lesskilningi á Austurlandi, um 47 stig. Þetta samsvarar því að lesskilningur nemenda í 10. bekk árið 2015 hafi verið sambærilegur og lesskilningur áttundubekkinga árið 2000. 

Undir meðaltali OECD í stærðfræði og náttúruvísindum

Skortur á lesskilningi og slakur orðaforði kemur niður á námsárangri í fleiri greinum. Hann er hindrun þegar kemur að því að lesa texta um ljóstillífun, til dæmis, eða leysa orðadæmi í stærðfræði. Þá telja fræðimenn að bæta þurfi námsefni í náttúruvísindum og íslensku. Læsi grunnskólanemenda á náttúruvísindi hefur hrakað mikið á síðastliðnum árum, mest á landsbyggðinni, og stærðfræðilæsi hefur hrakað stöðugt frá því það var fyrst metið árið 2003. Ísland er undir meðaltali OECD-ríkja í báðum greinum. Í stærðfræði hefur dregið úr muni á milli stelpna og stráka vegna þess að árangur stelpna hefur versnað. 

Finnar á hraðri niðurleið 

Þróunin hefur verið á annan veg í flestum nágrannaríkjum okkar. Í Noregi, Danmörku og Svíþjóð hefur námsárangur batnað undanfarin ár. Finnland, sem stendur best Norðurlandanna, er þó á niðurleið, þar hefur námsárangri hrakað mikið frá síðustu könnun, árið 2012. 

Mynd með færslu
 Mynd: MMS
Lesskilningur.

Nemendur af erlendum uppruna sviknir?

Illugi segir það mikilvægt að allir nemendur hafi jöfn tækifæri að loknu grunnskólanámi óháð efnahagslegri og félagslegri stöðu foreldra. Þeir þurfi að geta lesið sér til gagns og vera færir um að hefja nám á framhaldsskólastigi. Annað séu svik við nemendur. Þá hafi það alvarleg áhrif á lýðræðið og efnahagslífið, geti borgarar ekki lesið sér til gagns og þar með ekki menntað sig. Börn af erlendum uppruna standa sérstaklega höllum fæti. Fjöldi nemenda sem talar annað tungumál en íslensku á heimili sínu hefur þrefaldast síðastliðin fimmtán ár. Á sama tíma hefur árangur þeirra á lesskilningsprófum versnað verulega. Bilið á milli innflytjenda og innfæddra er í dag tvöfalt breiðara en það var árið 2000. Munurinn á milli hópanna samsvaraði einu og hálfu skólaári árið 2000 en árið 2015 var munurinn á við tvö og hálft skólaár. Bilið hér er breiðara en gengur og gerist í ríkum OECD en það hefur heldur minnkað síðastliðin ár.

Mynd með færslu
 Mynd: MMS

Erfitt með að uppfylla þarfir 

Í skýrslunni segir að leiða megi líkur að því að 15 ára ungmenni af fyrstu kynslóð innflytjenda muni eiga erfitt með að uppfylla persónulegar, námslegar og samfélagslegar þarfir sínar hér á landi. Málkönnunarpróf sem lagt var fyrir reykvísk börn af erlendum uppruna í fyrra bendir til þess að íslenskukunnátta 800 barna, 60% þeirra, sé svo takmörkuð að þau geti engan veginn tekist á við nám sitt. Fræðimenn hafa lagt mikið upp úr virku tvítyngi, góður grunnur í eigin móðurmáli sé forsenda þess að ná færni í íslensku. Í nýrri framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda sem gildir næstu þrjú árin kemur fram að setja eigi á fót starfshóp sem á að stuðla að því að jöfnuður aukist í PISA-könnuninni árið 2018 og verði yfir meðaltali OECD-ríkja. Þá er þar að finna markmið um að 75% nemenda með íslensku sem annað mál fái stað- eða fjarkennslu í eigin móðurmáli árið 2018. Algengt er í dag að börn læri móðurmál sitt utan skóla, kennslan er á vegum félagasamtaka.

Í skýrslu Menntamálastofnunar um Pisa-könnunina kemur fram að í þeim ríkjum þar sem munur á milli þessara barnahópa er lítill, sé lögð áhersla á að veita viðbótarkennslu í tungumálinu sem kennt er á. Þá kemur fram að í þeim ríkjum séu börn af erlendum uppruna ekki sett í sérhóp eða aðskilin frá öðrum börnum. Illugi segir að það geti verið flókið að útvega móðurmálskennslu í skólum um allt land en það sé skylda samfélagsins að mæta þessum hópi. Tryggja þurfi viðbótarfjármagn inn í skólakerfið. 

„Til að tryggja það að þau geti lært og orðið fullir þátttakendur í okkar samfélagi.“ 

Engum einum að kenna

Illugi segir ekki hægt að kenna neinum einum um slakan árangur Íslands. Nær sé að spyrja hvort vandinn sé kerfislægur. 

„Er það í kennaramenntuninni okkar, því hvernig við styðjum við skólana, starfsemi skólaskrifstofa, samhenginu á milli þess sem fram fer á skólum og heimilum, þjóðfélagsbreytinga?“ 

Spyr Illugi. 

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Illugi Gunnarsson.

Enskan allt um lykjandi

Arnór Guðmundsson, forstjóri Menntamálastofnunar, nefnir ýmislegt sem hann telur að kunni að hafa haft neikvæð áhrif á námsárangur. Það hafi orðið miklar samfélagsbreytingar og nemendur verji stórum hluta tíma síns í ensku málumhverfi á netinu. Þau hafi lítinn aðgang að íslensku efni í stafrænum heimi. Einn fundargesta benti á að Íslendingar hafi alltaf verið bókmenntaþjóð, það hafi kannski ekki þurft að hafa jafn markvisst fyrir orðaforða áður en nú sé þörf á því. Arnór segir starfið í skólanum lítið hafa breyst frá árinu 2000, skólakerfið sé sterkt og sinni börnunum vel. Þá sé lítill munur á milli árangurs skóla, þó munur sé á milli landsbyggðar og höfuðborgar. Hann telur að hugsanlega hafi nokkuð vantað upp það að stjórnvöld veiti skólunum aðhald, að skýrari viðmið komi að ofan. 

„Við höfum kannski slakað á varðandi aðhald með skólum, að fylgjast með árangri og hvað það er sem þarf til að efla árangur, ef við horfum til landanna í kringum okkur þá hafa þau í langan tíma verið að veita skólum, kennurum markvissan stuðning með þjálfun, efni, eftirfylgd, skýrum árangursviðmiðum og því að aðstoða kennara við að meta nemendur út frá þessum viðmiðum. Það hefur slaknað á þessu. Að einhverju leyti má rekja það til flutnings grunnskóla til sveitarfélaga en líka þess að menn hafa kannski ekki horft nógu vel á að menn þurfa að setja orku og fjármagn í að innleiða þá stefnu sem menn hafa sett.“

Hann segir ákveðna stöðnun hafa ríkt þegar kemur að símenntun og starfsþróun kennara. Áður hafi símenntun verið á ábyrgð ríkisins. Þetta hafi riðlast að einhverju leyti þegar rekstur grunnskólanna færðist yfir til sveitarfélaga og símenntun dregist saman. Þá hafi stefnan um skóla án aðgreiningar leitt til þess að velferðarþjónusta hafi orðið fyrirferðarmeiri innan skólanna. Þetta hafi hugsanlega bitnað á kennslu og þar með námsárangri. 

„Við höfum kannski tekið mjög stór skref í að innleiða skóla án aðgreiningar án þess að horfa á hvað þarf til, varðandi stuðning og verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Orkan hefur svolítið farið í það hjá sveitarfélögum að sinna þessu, ekki þessari kjarnastarfsemi sem á að vera í skólunum sem er kennslan.“

En ætlar Menntamálastofnun að bregðast við þessari skýrslu með því að grípa til aðgerða þegar í stað? Arnór segir að haldið verði áfram með læsisverkefnið. Það þurfi að bregðast við skorti á námsgögnum í náttúruvísindum, gera áætlun um hvernig efla megi símenntun og innleiða stöðupróf í náttúrufræði, kennarar geti þá fengið upplýsingar um stöðu nemenda og fengið ráðgjöf í framhaldinu. 

Illugi segir að varast beri einfaldar skyndilausnir. Þessi staða sé komin upp fyrir tilstilli margra, samverkandi þátta. 

„En það skiptir máli að taka ákvarðanir núna, hrinda þeim í framkvæmd, eins og við gerðum með læsisátakið. Það er ekki eftir neinu að bíða því það tekur nokkur ár að breyta kerfinu og bæta gæðin.“

Nú sé brýnt að beina kröftunum að náttúrufræði og stærðfræði. Samhliða þurfi ríki og sveitarfélög að ná samstöðu um að efla faglegan stuðning við skóla og móta stefnu til langs tíma. Menntamálaráðuneytið hyggst ásamt Menntamálastofnun boða til víðtæks samráðs og samstarfs um nauðsynlegar aðgerðir til þess að bregðast við niðurstöðu könnunarinnar. 

Horft til læsis í leikskóla

Fræðimenn á menntavísindasviði Háskóla Íslands telja að setja þurfi skýrari viðmið um lestur og náttúrufræðinám í aðalnámskrá og efla stuðning við kennara. þetta eigi til dæmis við um íslenskukennslu barna af erlendum uppruna. Þeir kalla eftir betra námsefni í náttúrufræði og íslensku og leggja til að sérstaklega verði horft til læsis strax í leikskóla og náttúruvísindakennsla á unglingastigi efld. Þetta sé í samræmi við aðgerðir sem gripið hafi verið til annars staðar á Norðurlöndunum. 

Sá í hvað stefndi

Illugi segist hafa séð í hvað stefndi og því ákveðið að grípa til aðgerða, hann gaf út hvítbók með markmiði um að lækka hlutfall þeirra sem ekki ná lágmarksviðmiðum í lestri úr 79% í 90% og í fyrra hratt hann af stað læsisátaki til fimm ára. Læsisátakið beinist fyrst og fremst að yngri börnum og áhrifa er enn ekki farið að gæta í Pisa-könnunum. Illugi segir þó að þegar séu komnar fram vísbendingar um að þróunin á sviði lesskilnings sé að snúast við.

„Ég er fullviss um að þetta átak sem við höfum gripið til um læsið, að þegar þessir krakkar sem eru núna í kerfinu, sex, sjö, átta, níu, tíu ára, þegar þau ljúka grunnskólanámi sínu eftir nokkur ár verða þau í mun betri stöðu en þau sem eru núna.“

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV