Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Íslenska verði fest í stjórnarskrá

21.11.2012 - 18:59
Mynd með færslu
 Mynd:
Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra vill taka til alvarlegrar skoðunar að festa íslenska tungu í stjórnarskrá. Varað var við „stafrænum dauða“ íslenskunnar á Alþingi í dag.

Sérstök umræða var á Alþingi í dag um íslenska tungu á tölvuöld að frumkvæði Marðar Árnasonar. Mörður sagði að byltingu netsins mætti líkja við prentbyltinguna á sínum tíma. Nú væri tungumálið sjálft að verða stjórntæki.

Mörður sagði að íslenskan væri ásamt tuttugu tungumálum til viðbótar vanbúin að bregðast við þróuninni og ættu á hættu að verða fyrir því sem á íslensku hefur verið kallað „stafrænn dauði“.

Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra tók undir með Merði. Stafræna byltingin hefði valdið róttækum breytingum tungumálsins. Ótrúlegar breytingar hefðu  átt sér stað sem margir væru ekki meðvitaðir um í dagsins önn. Og hún tók dæmi.

„Ég hlustaði á þann ágæta rithöfund Pétur Gunnarsson.lesa upp úr nýrri skáldsögu sinni á dögunum. Hann hóf að rita hana árið 1992 og nú, þegar hún kemur út árið 2012, kemur á daginn að það skrifar enginn lengur ávísanir. Fólk notar ekki lengur heimasímann. Það notyar tölvupóst, SMS og kort.“

Birkir Jón Jónsson spurði hins vegar hvort ekki væri tilefni til að festa íslensku í stjórnarskrá. Menntamálaráðherra taldi fulla ástæðu til að taka það til alvarlegrar skoðunar.