Íslenska ríkið braut gegn Agli Einarssyni

07.11.2017 - 09:44
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Mannréttindadómstóll Evrópu hefur komist að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið hafi brotið gegn mannréttindum Egils Einarssonar, sem einnig gengur undir nafninu Gillzenegger, þegar Hæstiréttur sýknaði íslenskan karlmann fyrir ærumeiðandi aðdróttun gegn Agli. Þetta taldist brot á 8. grein mannréttindasáttmála Evrópu þar sem segir að sérhver maður eigi rétt til friðhelgi einkalífs.

Mannréttindadómstóllinn kemst að þeirri niðurstöðu að Egill eigi ekki rétt á miskabótum frá ríkinu, niðurstaða dómsins sé fullnægjandi og réttlátt uppgjör svo ekki sé þörf á miskabótum. Ríkið er hins vegar dæmt til að greiða honum 10.000 evrur í málskostnað fyrir íslenskum dómstólum og 7.500 evrur í málskostnað fyrir Mannréttindadómstólnum. Samanlagt eru það um 2,15 milljónir króna og töluvert lægri upphæð en Egill krafðist. Hann krafðist rúmlega 4,5 milljóna króna í málskostnað.

Umræða um kynferðisbrot

Málið snýst um samfélagsumræðu í kjölfar þess að ein stúlka kærði Egil fyrir nauðgun í lok árs 2011. Í byrjun árs 2012 steig önnur kona fram sem einnig sakaði Egil um kynferðislegt ofbeldi. Ákæruvaldið ákvað síðar á árinu 2012 að láta málin niður falla án þess að gefa út ákæru. Þá hafði málið valdið miklu fjaðrafoki í samfélaginu og margir tjáð sig fjálglega á samfélagsmiðlum um ásakanirnar á hendur Agli. Hann ákvað að höfða meiðyrðamál gegn fólki sem hafði tjáð sig um málið og kallað hann nauðgara opinberlega. 

Hæstiréttur klofnaði

Meðal þeirra var íslenskur karlmaður sem birt hafði mynd af Agli á Instagramreikningi sínum og skrifað við hana „Fuck you rapist bastard“. Meiðyrðamálið fór alla leið fyrir Hæstarétt þar sem maðurinn var ekki fundinn sekur um ærumeiðandi aðdróttun.

Hæstiréttur klofnaði í málinu en meirihlutinn komst að þeirri niðurstöðu að myndbirtingin hafi verið innan marka þess frelsis sem honum er tryggt í stjórnarskrá og í raun hafi verið um gildisdóm að ræða. Minnihlutinn sagði hins vegar að textinn sem fylgdi myndinni gæti ekki talist gildisdómur heldur væri Egill með þessu sakaður um ákveðinn refsiverðan verknað án þess að hægt væri að styðja þá fullyrðingu með rökum, enda hafði Egill ekki verið dæmdur fyrir kynferðisofbeldi. Því taldi minnihlutinn að um refsiverð meiðyrði væri að ræða.

Tjáningarfrelsi og friðhelgi einkalífs

Egill fór með málið fyrir Mannréttindadómstól Evrópu. Mannréttindadómstóllinn segir í niðurstöðu sinni að málið snúist um að finna jafnvægi á milli tjáningarfrelsis fólks og rétt annarra til friðhelgi einkalífs.

Mannréttindadómstóllinn segir í niðurstöðu sinni að það hafi skipt máli að Egill er þjóðþekkt persóna og því sé eðlilegt að fólk hafi rýmra frelsi til að tjá sig um hann í samfélagsumræðunni. Þá er einnig bent á að málið hafi snúist um umræðu sem kom almenningi við (e. it was an issue of general interest).

Hins vegar bendir dómstóllinn á að ásökunin sem fylgdi myndinni sem birt var hafi verið alvarleg og til þess fallin að skaða mannorð Egils alvarlega. Þá skiptir höfuðmáli í úrlausn dómsins að skera úr um hvort um gildisdóm var að ræða eða staðreynd. Mannréttindadómstóllinn tekur ekki undir þá niðurstöðu Hæstaréttar að það geti taldist gildisdómur að skrifa opinberlega að einhver sé nauðgari. Þvert á móti sé það skýr ásökun um alvarlegan verknað. Þessa ásökun var ekki hægt að styðja með staðreyndum, enda hafði saksóknari komist að þeirri niðurstöðu að ekki væri ástæða til að ákæra Egil fyrir kynferðisofbeldi.

Þá segir Mannréttindadómstóllinn að jafnvel þó fallist væri á að um gildisdóm hafi verið að ræða þá verði að vera hægt að styðja slíka ásökun með einhvers konar staðreyndum eða rökum. Það hafi ekki verið hægt í þessu tilviki og því hafi falist í ásökuninni ærumeiðandi aðdróttun. Mannréttindadómurinn taldi hana nægilega alvarlega til að brjóta gegn rétti Egils til friðhelgi einkalífs.

Athugasemd: Upphaflega stóð að Egill ætti rétt á miskabótum frá ríkinu. Hið rétta er að svo er ekki.

birkirbi's picture
Birkir Blær Ingólfsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi