Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Íslenska óperan selur Gamla bíó

25.03.2013 - 11:01
Mynd með færslu
 Mynd:
Gamla bío við Ingólfsstræti, sem hýsti lengst af Íslensku óperuna, hefur verið selt til fyrirtækisins Fjelagið hf en það er meðal annars í eigu Steindórs Sigurgeirssonar, eiganda Storms Seafood sem búsettur er í Hong Kong. Rekstur hússins verður með svipuðu sniði til að byrja með.

Stefán Baldursson, óperustjóri, staðfesti að húsið hefði verið selt..  Hann segir kaupin hafa gengið í gegn fyrir nokkrum dögum en staðið hefur til að selja húsið í nokkurn tíma.

Samkvæmt heimildum fréttastofu verður rekstur hússins með svipuðu sniði og undanfarin ár en hefur verið leigt út undir viðburði. Nýir eigendur hafa þó sýnt því áhuga að koma upp meiri veitingarekstri en hefur verið í húsinu síðar meir.

Stefán bendir á að húsið sé friðað að framan, anddyrið einnig, miðasala og það sem snýr að áhorfendum.  Vilji menn gera breytingar á húsinu þurfi að leita til húsafriðunarnefndar.

Stefán segir að kaupverðið sé ekki gefið upp.

Fjelagið hf keypti í janúar á þessu ári Vesturgötu 2 þar sem Kaffi Reykjavík er til húsa.