Íslenska módelið lítið og krúttlegt

Mynd: Menningin / RÚV

Íslenska módelið lítið og krúttlegt

13.03.2018 - 14:55

Höfundar

„Ég held að fólk sé að átta sig á að það þurfi ekki að vera heimsfrægur til að geta skapað fólki atvinnu og verðmæti fyrir samfélagið,“ segir Sindri Ástmarsson, umboðsmaður sem á dögunum var útnefndur einn af 20 bestu tónlistarumboðsmönnum Norðurlandanna.

Hann rýndi í íslenskt tónlistarlíf ásamt Katrínu Mogensen, söngkonu Mammút í tilefni af afhendingu íslensku tónlistarverðlaunanna sem fram fer annað kvöld. Mammút fékk flestar tilnefningar í ár, alls 6 talsins, en hljómsveitin hefur verið starfandi í 14 ár. Katrína segir krefjandi verkefni að reyna að ná yfirsýn yfir íslenskt tónlistarlíf. „Landslagið er fínt, maður kemst að því hvað maður veit í rauninni lítið hvað er í gangi í íslenskri tónlist - bara alls konar eitthvað. Breiddin er mikil og maður þekkir ekki allt, sem segir til um hversu mikið er í gangi.“

Opnari fyrir nýrri tónlist

Næstflestar tilnefningar fá félagarnir JóiPé og Króli, sem stukku fram á sjónarsviðið með látum á síðasta ári. Sindri fagnar því að nýliðar fái svo ríka viðurkenningu. „Ég held að það sé mjög jákvætt að það sé ekki lengur þannig að fólk þurfi að sanna sig og vera lengi í bransanum til að komast inn í klíkuna heldur færðu viðurkeningu strax. Ég held að það sjáist svolítið þegar þú horfir yfir síðasta ár að það tekur styttri tíma að koma sér á toppinn á Spotify eða í útvarpsspilun heldur en áður, sem er góð þróun að mínu mati - að fólk sé opnara fyrir nýrri tónlist.“   

Ein þeirra leiða sem tónlistarmenn nota til að dreifa sköpun sinni og vekja athygli er að gefa út metnaðarfull tónlistarmyndbönd. Liðsmenn Mammút leggja sérstaka áherslu á þann miðil og eru myndböndin þeirra raunar sjálfstætt listrænt framlag. „Við leggjum mjög mikið upp úr því að gera hlutina sjálf, eða fáum listamenn eins og Sunnevu Ásu Weisshappel, sem er rosa kær vinkona mín og okkar allra - hún hefur verið okkar samstarfsmaður í listrænu ferli. Þetta erum bara við að gera okkar,“ segir Katrína. 

Staðsetningu Sindra meðal 20 bestu umboðsmanna undir þrítugu á Norðurlöndum segir hann vera til vitnis um að Íslendingar séu jafn gildandi í þessum bransa og aðrar stærri þjóðir. „Við skerum okkur úr frá hinum Norðurlöndunum að því leyti að við erum ekki með stóru plötufyrirtækin, þau starfa ekki hér, Sony og Universal og Werner. Þar af leiðandi er bransinn aðeins minni, því hér er engin erlend fjárfesting. Þetta er allt svolítið þannig að menn gera hlutina sjálfir. Við erum með umboðsfyrirtæki sem er frekar lítið og krúttlegt og það er kannski bara íslenska módelið.“

Fyrir örfáum árum síðan voru engin umboðsfyrirtæki á borð við það sem Sindri rekur, Mid Atlantic Entertainment, hér á landi. Starfsemi þess hefur aukist og styrkst síðustu ár og nokkur skyld fyrirtæki sprottið upp í kjölfarið. „Við eigum erfitt með að keppa við þá sem eru að gera svipaða hluti í öðrum löndum Evrópu en samt sem áður er gott fyrir íslenska tónlistarmenn að eiga einhvern hérna heima sem sérhæfir sig í svona hlutum,“ segir hann. Meðal þeirra sem Sindri starfar fyrir eru Glowie og Kaleo sem hafa átt velgengni að fagna utan landsteinanna. „Við fögnum færibandavelgengni núna, mikið af hljómsveitum fer erlendis og gerir góða hluti og ég held að fólk sé líka að átta sig á að það þurfi ekki alltaf vera heimsfrægur til að geta skapað fólki atvinnu og verðmæti fyrir samfélagið.“ 

Sameining hausa með eina útkomu

Sem fyrr segir hefur Mammút verið starfandi í 14 ár og notið góðs gengis. Hvernig halda þau sköpunargleðinni virkri og vinsældum lifandi? „Við sem einstaklingar erum bara forvitin og höldum bara áfram að sinna því og halda vel utan um það sem okkur þykir vænt um og okkar ástríður. Þar af leiðandi höldum við áfram að þróast. Ríghöldum ekki í eitthvað sem gengur upp árið 2008 eða eitthvað. Ég held að þetta sé bara spurning um að fylgja ástríðunni. Svo lengi sem hún er þarna þá höldum við áfram að vera skapandi,“ segir Katrína.

Á síðustu árum hefur orðið vart við þá þróun að fullskipuðum hljómsveitum með hljóðfæraleikurum fari fækkandi og á sviði standi færri flytjendur með undirleik af bandi. Aðspurð segir Katrína hljómsveitir engu að síður halda gildi sínu. „Ég held að þær muni aldrei hverfa, ég held að við séum bara núna inni í einhverri annarri vinsældaöldu. Það er svo dýrmætt að hlusta á hljómsveitir, það er sameining margra hausa með eina útkomu,“ segir Katrína. 

Tengdar fréttir

Tónlist

Mammút með flestar tilnefningar